131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Skattgreiðslur Alcan á Íslandi.

258. mál
[13:55]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef beint svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra:

,,Hver eru viðbrögð ráðherra við óskum Alcan á Íslandi og Hafnarfjarðarbæjar um að skattgreiðslur fyrirtækisins taki mið af almennri umgjörð íslenskra skattareglna?“

Ástæðan fyrir fyrirspurn minni er m.a. sú að fyrir liggja erindi, annars vegar fyrirtækisins og hins vegar Hafnarfjarðarbæjar, til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Fyrra erindið er frá fyrirtækinu frá 28. maí 2003 og frá Hafnarfjarðarbæ þann 13. október síðastliðinn.

Það má svo sem velta því fyrir sér af hverju ég spyrji ekki hæstv. iðnaðarráðherra um viðbrögðin við þessum erindum en kannski liggur svarið einfaldlega í því að hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki gert svo lítið að svara þeim. Því taldi ég farsælast að leita upplýsinga hjá fjármálaráðherra sem fer með skattamál íslenska ríkisins.

Það eru vitaskuld tvær hliðar á þessum peningi. Alcan á Íslandi, Straumsvík, greiðir samkvæmt samningi við íslenska ríkið og Hafnarfjarðarbæ samkvæmt gömlum reglum, gömlum viðmiðum, sem í raun þýðir með talsverðri einföldun að ríkissjóður fær meira í sinn hlut en Hafnarfjörður minna en ef skattlagt væri samkvæmt almennum skattareglum sem gilda um velflest önnur fjölþjóðleg stóriðjufyrirtæki á Íslandi. Hafnarfjarðarbær hefur til að mynda reiknað út að ef þetta fyrirtæki væri skattlagt eins og önnur í bæjarfélaginu þá mundu tekjur af fasteignaskatti og lóðagjöldum tvöfaldast, verða tvöfalt hærri en er í dag samkvæmt viðmiðunum um framleiðslugjald sem gilt hefur um langt árabil í Straumsvík. Með öðrum orðum færu tekjur bæjarsjóðs af því úr 93 millj. kr. á ári í tæpar 180 millj. kr.

Á hinn bóginn má vænta þess að ef ríkissjóður færi að óskum fyrirtækisins um að fella samninginn að almennri skattaumgjörð hér á landi þá mundu skatttekjur ríkisins að sama skapi lækka umtalsvert. Það væri fróðlegt að fá tölfræðilegar upplýsingar frá hæstv. ráðherra um þau efni.

Ég minnist þess að hæstvirtir fjármálaráðherrar, núverandi og fyrrverandi, hafa margsinnis lýst því yfir að samningar við fyrirtæki sem hasla sér völl hér á landi, sérstaklega á vettvangi stóriðju, ættu að falla að almennum skattalögum og skattareglum. Ég spyr því: Hver er afstaða ráðherrans til þessara tilteknu erinda og hvernig mun ríkisstjórnin svara þeim?