131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Skattgreiðslur Alcan á Íslandi.

258. mál
[14:07]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Þessi síðasta setning er eiginlega alveg óskiljanleg, er náttúrlega bara skætingur þegar verið er að tala alvarlega um mikilvægt mál sem er fyrirkomulag skatta á álverið í Straumsvík. Ég vil segja að alveg frá byrjun hefur staðsetningin á þessu álveri í Straumsvík verið búhnykkur fyrir Hafnarfjörð og bæjarbúana þar. Ég fagna því, tel að það sé mjög fínt og hafi alla tíð verið fyrir þetta bæjarfélag.

Ég hef ekki upplýsingar tiltækar um tekjur ríkisins af þessu fyrirtæki og hvernig þær mundu breytast ef núverandi framleiðslugjald yrði lagt niður og fyrirtækið færi inn í almenna skattkerfið. Það er ekki aðalatriðið í þessu máli og það er ekki það sem við erum að skoða þegar verið er að taka afstöðu til breytinganna. Fyrirtækið getur farið fram á þessar breytingar og á rétt á þeim og ef fyrirtækið á rétt á þeim er það ekki aðalatriði málsins hvaða áhrif það hefur á tekjur ríkissjóðs eða skiptingu tekna milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar.

Það er eitt sem ég vildi segja út af síðari ræðu þingmannsins. Hann notaði orðalag sem ég kannast ekki við að hafa sjálfur notað um auka... (GÁS: ... góðs ... sveitarfélög ... búhnykkur ...) Nei, það var ekki það. Ég var að gefa í skyn að fyrirtækið vildi fá heldur meira fyrir sinn snúð en næmi reglunum í almennu skattalögunum. Ég hygg að nokkuð sé til í að fyrirtækið vilji fá notið góðs af núverandi almennum skattareglum en jafnframt notið einhverra réttinda sem er að finna í gildandi kerfi. Við getum ekki sætt okkur við það en það sem meira er er að slík afgreiðsla bryti væntanlega í bága við ríkisstyrkjareglur Evrópska efnahagssvæðisins vegna þess að þetta fyrirtæki er ekki á svokölluðu byggðakorti Eftirlitsstofnunar EFTA.