131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Atvinnuleysi.

78. mál
[14:17]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en býst varla við því að hæstv. ráðherra hafi kveikt nokkra von í brjóstum einhverra þeirra 4–6 þús. sem eru atvinnulausir ef svo vill til að þeir hafi verið að hlýða á mál hans. Hæstv. ráðherra eyddi mestu af tíma sínum í að lesa upp tölur úr skýrslum Vinnumálastofnunarinnar um atvinnuleysi sem við höfum öll aðgang að. Ég var hins vegar að kalla eftir viðbrögðum ráðherrans. Hver er meginskýring þess að yfir 70% allra atvinnulausra eru á höfuðborgarsvæðinu? Ég gat ekki heyrt að ráðherrann véki neitt að því sem er bein spurning til ráðherrans og hvernig hann ætlaði þá að bregðast við því. Það voru engin úrræði eða aðgerðir sem ráðherrann nefndi, því miður.

Það voru heldur engin úrræði hjá hæstv. ráðherra um það hvernig hann ætlar að snúa við þeirri öfugþróun að 4–6 þús. manns eru að jafnaði á atvinnuleysisskrá.

Við stöndum frammi fyrir því að harkan á vinnumarkaðnum hefur aukist, meiri kröfur eru gerðar til fólks og það er örugglega ein skýringin á langtímaatvinnuleysinu. Hæstv. ráðherra nefndi jú menntunar- og starfstengd úrræði fyrir langtímaatvinnulausa en það þarf að gera miklu meira. Það þarf að ráðast í það miklu meira en gert hefur verið að greina vandann, leita eftir skýringum og vinna markvisst að því að þetta fólk fái lausn mála sinna á vinnumarkaðnum. Mér fannst vanta mikið upp á, virðulegi forseti, að í svari ráðherrans kæmi fram að hann ætlaði eitthvað að gera í þessu máli. Það er ekki nóg að lýsa einhverjum áhyggjum ef þeir sem völdin hafa gera svo ekkert í málinu.

Ráðherrann nefndi hér styrki til atvinnumála kvenna. Þetta er sjóður sem hefur starfað í sennilega 10–15 ár og gert mikið gagn en fjármagn til hans hefur ekkert aukist. Ég veit að þetta fjármagn hefur nýst mjög vel. Ég hefði t.d. viljað heyra ráðherrann segja að hann mundi auka fjármagn í þennan sjóð sem gagnast konum mjög vel. (Forseti hringir.) En ég kalla frekar, virðulegi forseti, eftir úrræðum ráðherrans.