131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heimilislausir.

153. mál
[14:30]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég finn í svörum ráðherra eins og á síðasta þingi góðan vilja hjá honum til að finna lausn á þessum málum. Hæstv. ráðherra er að vinna að því. En hér er spurt um efndir. Ráðherrann segist hafa skipað nefnd í ágúst sl., samráðsnefnd aðila, félagskerfisins, heilbrigðiskerfisins og löggæslunnar, til að skoða vanda þessa hóps. Ég velti fyrir mér: Af hverju var þessi nefnd ekki skipuð fyrr? Vandinn lá fyrir, hefur legið fyrir lengi, var rakinn á síðasta þingi en það er ekki fyrr en í ágúst sem þessi nefnd er skipuð.

Það kemur upp í huga mér hvort niðurstaðan hjá þessari nefnd og framkvæmd ríkisstjórnar verði með sama hætti og þegar ríkisstjórnin skilaði af sér á síðasta þingi, virðulegi forseti, niðurstöðu sinni um hvernig eigi að taka á vanda fátækra í Reykjavík. Það voru ekki nokkur úrræði sem ríkisstjórnin lagði þá fram, vísaði öllu á sveitarfélögin. Því miður óttast ég að það geti farið eins núna en það má bara ekki verða, virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra segir að það eigi skila skýrslu 15. janúar. Með því verður fylgst og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi með þessa skýrslu inn í þingið, að við fáum að ræða þessa stöðu og niðurstöðuna sem úr því kemur og þá verði lögð fram skýr áætlun um það hvernig eigi að finna lausn á þessum vanda. Það er ekki boðlegt í velferðarsamfélagi okkar að við þurfum að rekast á, ekki einn sem er á vergangi heldur stundum tugi saman í miðborginni sem ráfa um í reiðileysi og eiga hvergi höfði sínu að halla.

Ég spyr líkt og síðasti ræðumaður: Hvaða áætlun liggur fyrir af hálfu heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra til að leysa búsetuvandamál 77 geðfatlaðra einstaklinga? Liggur fyrir einhver áætlun um það hvernig henni verður hrint í framkvæmd? Hvenær megum við eiga von á að sjá lausn í þessu máli? Það er orðin skömm að því, virðulegi forseti, ef ekki verður tekið fljótt á því.