131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heimilislausir.

153. mál
[14:32]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu. Það er hverju orði sannara sem fram kom í máli fyrirspyrjanda og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hér er verkefni sem brýnt er að við tökumst á við. Ég tel hins vegar mikilvægt, eins og fram kom í máli mínu áðan, að hér taki menn höndum saman og séu sammála um með hvaða hætti á að takast á við vandann. Það er það verkefni sem blasir við okkur núna og við höfum verið að vinna að frá því að við áttum þá umræðu sl. vor sem hér hefur komið til tals. Þótt sá hópur sem ég gerði að umtalsefni hafi ekki formlega verið skipaður fyrr en í ágúst kom hópurinn saman strax í kjölfar umræðunnar í vor og hefur að mínu viti unnið vel að því verkefni sem honum var falið.

Ég mun að sjálfsögðu gera mitt ýtrasta til að upplýsa um niðurstöðu þeirrar vinnu sem ég hef rakið að farin er af stað. Það blasir við að við þurfum að taka á búsetuvanda geðsjúkra og sjúkra og geðfatlaðra með kannski líkum hætti, hæstv. forseti, og gert var varðandi fatlaða. Á sínum tíma var sett upp metnaðarfull áætlun sem tók til fimm ára og ríkisstjórnin hefur séð til þess að á hverju ári hafa fjármunir verið veittir til þess að bregðast við þeim vanda sem þar var uppi. Við sjáum nú fyrir enda þess verkefnis, þ.e. biðlistunum í málefnum fatlaðra verður brátt eytt, og ég vil gjarnan sjá álíka áætlun verða til hvað varðar búsetumál geðsjúkra og geðfatlaðra og eins og ég rakti í máli mínu áðan vonast ég til að sú áætlun líti dagsins ljós eigi síðar en í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.