131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

96. mál
[14:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra vegna þessarar umræðu um sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík: Hvert er kostnaðarmat ríkisins á eigum ríkisins í Tækniháskóla Íslands og hvernig er það metið inn í þetta einkahlutafélag sem er verið að stofna um þetta samstarf?

Þegar umræðan um þetta kom upp var verðmatið á Háskólanum í Reykjavík ljóst en það kom aldrei fram, eða ég varð ekki vör við þær upplýsingar, hvert matið á Tækniháskólanum inn í þetta einkahlutafélag væri. Þess vegna vildi ég gjarnan fá upplýst hérna hvernig þær eru metnar í eigu ríkisins sem verða lagðar inn í þetta einkahlutafélag þegar þessir skólar eru orðnir ein stofnun.