131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

96. mál
[14:48]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni. Það er greinilegt að þingmönnum er mikið niðri fyrir varðandi þessa sameiningu og það er alveg ljóst af svörum hæstv. menntamálaráðherra að undirbúningur undir sameininguna hefur ekki farið fram, hann er allur í skötulíki.

Það er alveg ljóst af þeim pappírum sem hv. þingmenn hafa fengið, m.a. frá stjórn BÍSN, Bandalags íslenskra námsmanna, (Gripið fram í.) sem hét einu sinni Bandalag íslenskra sérskólanema en hefur breytt um nafn, að það á að ganga fram hjá nemum, fram hjá stúdentum sjálfum varðandi stofnun háskólaráðs. Það á ekki að hafa þá með í ráðum og aðstandendur BÍSN segja að þeim sé treyst til að takast á við íslenskt atvinnulíf en það eigi ekki að treysta þeim fyrir aðkomu að stefnumótun hins nýja skóla. Það er auðvitað alveg grafalvarlegt.

Það er líka alvarlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki svara okkur neinu varðandi frumgreinadeildina. Frumgreinadeildin er á framhaldsskólastigi og ætlar hæstv. ráðherra að krefja nemendur um skólagjöld í einkaháskóla fyrir nám sem er á framhaldsskólastigi? Það er alveg eðlilegt að við fáum svör við því í þessari umræðu hvernig hún sér fyrir sér framhaldsskóladeild í þessu nýstofnaða einkahlutafélagi sínu.

Ég ætla líka að benda hæstv. menntamálaráðherra á grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. september sl. þar sem Einar H. Jónsson, sem er formaður Tæknifræðingafélags Íslands, lætur í ljósi mjög alvarlegar áhyggjur af því að tæknifræðin verði fyrir borð borin við stofnun þessa nýja skóla. Hann ber fyrir sig stjórn Tæknifræðingafélags Íslands og segir að hún hafi af því miklar áhyggjur að fyrirhuguð sameining komi til með að bitna á tæknifræðináminu og menntun íslenskra háskólamenntaðra tæknimanna verði einsleitari en nú er.

Ætlar hæstv. ráðherra ekki að svara þessu? Ætlar hún að láta sér nægja að svara í klisjukenndum upphrópunum um að nú eigi að hlúa sérstaklega að frumgreinadeildinni, (Forseti hringir.) það eigi að búa til samkeppnishæfni fyrir íslenskt atvinnulíf, þetta sé gífurlegt tækifæri? Frú forseti. Ég auglýsi eftir innihaldi í svör ráðherrans en ekki (Forseti hringir.) klisjukenndum upphrópunum eins og komu fram í svari hennar.