131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:09]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um eyðingu minka og refa. Kemur það til af því að við fluttum til landsins mink á sínum tíma. Refurinn hefur verið hér frá landnámsöld en minkurinn hefur orðið okkur skaðræðisskepna í náttúrunni og ætti það að vera okkur til umhugsunar um innflutning á dýrum og plöntum sem ekki tilheyra íslenska lífríkinu.

Það hefur verið mjög kostnaðarsamt að halda minknum í skefjum. Draumur flestra er að geta eytt honum úti í náttúrunni. Það hefur tíðkast í þó nokkur ár að deila þessum mikla kostnaði af eyðingu minks og refs, og þá sérstaklega minksins, á bæði sveitarfélögin og ríkið. Helmingaskipti hafa verið þar til núna allra síðustu ár að dregið hefur verið úr fjárframlögum ríkisins og leggst nú meginþunginn á sveitarfélögin. Þessu finna þau fyrir. Þau hafa því mjög mörg borið sig upp við fjárlaganefnd. Eins hafa fjórðungssamböndin hvatt til þess að framlög ríkisins verði aukin til jafns við kostnaðarauka af eyðingu minks og refs og að framlög ríkisins hækki í þessu skyni.

Síðasta vor spurðist ég fyrir um störf nefndar sem ráðherra skipaði um minka- og refaveiðar því að ekki er nóg að leggja eingöngu fjármagn í meiri veiðar. Einnig þarf að skoða hvernig best sé að standa að veiðunum svo að þær skili sem mestu. Tvær nefndir voru skipaðar, önnur 11. nóvember 2003 og síðan var skipuð nefnd 15. desember 2003. Ég tel að hún ætti að vera búin að skila af sér því mjög mikilvægt er að fá fram til hvaða aðgerða hæstv. umhverfisráðherra ætlar að grípa þar sem ljóst er að ekki fara aukin fjárframlög, eða að mjög litlu leyti, í þennan málaflokk nú, á fjárlögum yfirstandandi árs.

Ég hef því beint eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hefur nefnd sem ráðherra skipaði um minka- og refaveiðar skilað niðurstöðum?

2. Hvenær má vænta þess að tillögur nefndarinnar um aðgerðir til að draga úr skaða af völdum refa verði kynntar?

3. Verður auknu fjármagni varið til þessa málaflokks til að koma til móts við stóraukinn kostnað sveitarfélaganna?