131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:16]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Sveitarfélögin hafa staðið frammi fyrir afarkostum í málinu. Lög frá Alþingi kveða á um að sveitarfélögin skuli halda niðri ref og mink á stórum svæðum, það er lagaleg skylda. Þetta hefur verið fjárhagslegt samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga en ríkið einhliða ákveðið að halda þátttöku sinni niðri þannig að sveitarfélögin hafa staðið uppi bæði með framkvæmdina og greiðsluna. Það er fullkomlega óásættanlegt, hvað sem verður gert í framtíðinni, hvort nefndin sem hæstv. ráðherra minntist á og er búin að skila áliti, hvort þau álit komi til framkvæmda áður en fjárlög verða afgreidd.

En þetta samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, eins og að því hefur verið staðið, gengur einfaldlega ekki upp og ríkið verður að axla ábyrgð á móti sveitarfélögunum miðað við núverandi lög.