131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Hreindýrarannsóknir.

169. mál
[15:32]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Herra forseti. Örstutt svar. Það má nota hreindýr sem rök í umhverfismálum þar sem þau eru staðbundin, það er hægt að halda þeim í skefjum, þau hafa mikið aðdráttarafl fyrir Austurland og hafa skapað töluverða atvinnu og tekjur.

Ég þakka orð hæstv. umhverfisráðherra um að hún muni beita sér fyrir því að fara í sérstaka vöktun strax á næsta ári vegna virkjanaframkvæmdanna. Það er ekki nægilegt að fela Landsvirkjun að fara í þessa vöktun þegar framkvæmdunum er lokið og vakta bara inn í framtíðina. Það liggur á að skoða hegðun dýranna núna og það er langbest gert með því að setja inn í ákveðnar hjarðir sérstök senditæki til að fylgjast með hjörðunum. Talningin á ákveðnum tíma og á ákveðnum stað segir ekki nema takmarkað. Það segir ekki hvernig dýrin eru búin að flytja sig á heilu ári, heldur bara þennan dag sem þau eru talin. Þetta kostar fjármagn en ég held að það fjármagn muni skila sér.

Það þarf frekari rannsóknir og það þarf meira fjármagn inn í þetta og þess vegna fagna ég því að ráðherra beitir sér fyrir því að það komi strax á næsta ári.

Ég vil benda á mikilvægi þess að fara að samþykkt aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi frá 16. og 17. september þar sem það minnir á samþykkt um að tryggja forræði vegna stjórnunar og eftirlits með hreindýraveiðum, að það verði sem mest á Austurlandi. Með breytingu á lögum um hreindýraveiðar og hreindýraráð hefur stjórnunin farið að heiman og í aðra landshluta og það (Forseti hringir.) er alveg þvert á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar.