131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Símtöl til Grænlands.

112. mál
[15:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur farið fram mikil umræða um landamærahindranir undir forustu Pouls Schlüters. Þar hefur verið tekið á ýmiss konar hindrunum í samskiptum norrænu þjóðanna og ræddar leiðir til að minnka þær hindranir sem þar ríkja.

Á dögunum kom út skýrsla norrænna samkeppnisyfirvalda um fjarskiptamarkaðinn. Þar kemur fram að mun dýrara er að hringja milli norrænu landanna en innan einstakra ríkja. Ótrúlegar upplýsingar koma þar fram svo sem um símtöl milli Íslands og Svíþjóðar. Það kostar helmingi meira að hringja frá Íslandi til Svíþjóðar í þrjár mínútur en frá Svíþjóð til Íslands, þ.e. sömu leið. Frá Íslandi til Svíþjóðar kosta þrjár mínútur 50 kr. en hina leiðina 25 kr.

Norræn samkeppnisyfirvöld segja engin rök fyrir því að símtöl séu eins kostnaðarsöm á milli landanna og raun ber vitni. En í ljósi áherslu okkar Íslendinga á Vestur-Norðurlönd sem forustuþjóðar innan Norðurlandanna langar mig til að beina sjónum að kostnaði við símtöl milli Íslands og Grænlands en þar tekur fyrst steininn úr. Þar er símtalið til Grænlands meira en þrisvar sinnum dýrara en til Svíþjóðar, þó að vegalengdin sé mun styttri. Það kostar 60 kr. að hringja eina mínútu til Grænlands Það er sama verð og til Suður-Afríku eða Suður-Kóreu. Þó er heldur ódýrara að hringja hingað frá Grænlandi en héðan til Grænlands.

Í ljósi þess að samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndunum telja í skýrslunni ástæðulaust að verð sé svo hátt á símtölum milli landanna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hver séu rökin fyrir því að símtöl til Grænlands eru eins dýr og raun ber vitni miðað við það að þarna er mun styttri leið á milli landanna en í hinum tilvikunum sem ég nefndi hér á undan.