131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Símtöl til Grænlands.

112. mál
[15:38]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hv. þm. spyr: Hvaða ástæður eru fyrir því að símtöl til Grænlands eru eins dýr og raun ber vitni?

Af svörum símafyrirtækjanna má ráða að há verð á símtölum til Grænlands skýrist af því að ekki eru beinar tengingar milli Íslands og Grænlands auk þess sem þau fara um gervihnetti sem er kostnaðarsamur fjarskiptamáti. Þannig fer símtal til Grænlands fyrst um Danmörku héðan og síðan um gervihnött til símstöðvar á Grænlandi og þaðan í heimasíma. Þrátt fyrir þetta er verð íslensku símafyrirtækjanna mun lægra en t.d. þeirra sænsku, dönsku eða norsku. Dæmi um það má finna í töflu sem segir að gjald hjá Símanum hf. sé 59 kr., Og Vodafone 49,90 kr., TDC Danmörku 79,40 kr., Telenor í Noregi 95,25 kr. og Tele í Svíþjóð 62,30 kr. en þar er miðað við skráð viðmiðunargengi Seðlabankans 12. október sl.

Mögulegt er að fá lægra verð í gegnum netsíma, IP-síma eða með alþjóðlegum símakortum eins og t.d. Atlasfrelsi eða Atlas-800 frá Atlassíma ehf. eða símakortum IP-nets ehf. en ekki er um sömu gæði að ræða. Ber að undirstrika það alveg sérstaklega.

Eins og áður sagði var leitað upplýsinga frá íslensku símafyrirtækjunum um þessi verð og vil ég vísa hér í svör frá þeim. Í svari Símans kom eftirfarandi fram:

„Ástæðan fyrir háu verði til Grænlands er hátt uppgjörsgjald inn til þeirra. Síminn hefur ekki bein tengsl við Grænland, heldur kaupum við þessa þjónustu af öðrum. Sama ástæða liggur fyrir því að símgjöld til annarra landa eru lægri, þ.e. í þeim löndum sem verð er lágt eru uppgjörsgjöldin lægri.

Svo minni ég á að Síminn er ekki eina fyrirtækið sem býður símtöl til útlanda.“

Í svari frá Og Vodafone kemur fram m.a.:

„Símtöl frá Íslandi til Grænlands fara ekki stystu leið eins og ætla mætti. Þau eru fyrst send til Danmerkur og eftir því sem best er vitað er eina tengingin milli Danmerkur og Grænlands um gervihnött. Heildsöluverð til TDC er allhátt og smásöluverð í samræmi við það.

Hvað er dýrt er háð mati hverju sinni. Þannig er 49,90 kr. ódýrt borið saman við sambærilegt símtal hjá okkar helsta keppinauti sem kostar 59 kr. til Grænlands. Enn ódýrara er það borið saman við TDC þar sem sambærilegt símtal til Grænlands kostar 6,75 dkr. og Telenor þar sem símtalsmínútan kostar 8,92 nkr.“

Síðan segir í bréfi Og Vodafone:

„Að sjálfsögðu er líklega hægt að finna lægra verð en hér er spurt um gæðasamband um ljósleiðara um þá leggi þar sem þeir liggja. Líklega er hægt að fá ódýrari símtöl eftir öðrum leiðum sem jafnframt eru óáreiðanlegri og ekki með tryggðum gæðum.“

Framangreind svör símafyrirtækjanna ættu að upplýsa fyrirspyrjanda um mismunandi verðlagningu. Það er alveg augljóst að þar er verulegur munur en hann skýrist eins og fram kemur í þessu svari.