131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Símtöl til Grænlands.

112. mál
[15:44]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Það er ljóst, vegna fyrirspurnar hv. þm., að samgönguráðuneytið getur ekki með neinum hætti haft áhrif á verðlagningu símafyrirtækja. Það er ekki um það að ræða að samgönguráðuneytið geti gert þá kröfu að símafyrirtæki greiði niður símakostnað, í þessu tilviki á milli þessara landa.

Vandinn liggur í því að notkunin er tiltölulega takmörkuð. Það eru fáir, miðað við það sem gerist á milli Íslands og annarra landa, sem hringja á milli Íslands og Grænlands. Ofan í kaupið er tiltölulega dýr búnaður notaður við þá símaþjónustu. Það er því ekki á dagskránni af hálfu samgönguráðuneytisins að hafa atbeina að því að símafyrirtækin greiði þetta niður, hvað þá að það sé hægt að beina því til ráðuneytisins að það noti ríkisfjármuni til slíkrar niðurgreiðslu, það stangast á við allar reglur um viðskipti á sviði fjarskipta á hinu Evrópska efnahagssvæði.