131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Háhraðatengingar.

188. mál
[15:49]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki nýlunda að ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ræðum um háhraðatengingar. Það er að verða daglegt brauð hér í þinginu. En svar mitt er svohljóðandi:

Til skamms tíma hefur framkvæmd fjarskipta verið á forræði ríkisins. Símanum, áður Póst- og símamálastofnun, var falið að framkvæma stefnu stjórnvalda og byggja upp fjarskiptakerfi landsins. Síminn hafði einkaleyfi til fjarskipta og var um leið stjórnvald á því sviði.

Nú um 100 árum síðar hefur samræmd löggjöf Evrópu kallað á breytingar á þessu sviði, sem m.a. felast í afnámi einkaréttar til að veita fjarskiptaþjónustu og samkeppni á þeim markaði. Með þessu er lagður grunnur að einkavæðingu ríkisrekinna símafyrirtækja og er sala Landssímans eðlilegt framhald af því.

Nú bjóða fleiri fyrirtæki fjarskiptaþjónustu hér á landi í harðri samkeppni, sem m.a. hefur haldið uppi öflugri þjónustu og lágu verði. Í því lagaumhverfi sem þessari þjónustu er búin í dag er ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld framfylgi stefnu sinni með því að beita Landssímanum fyrir sig. Þess vegna er m.a. unnið að fjarskiptaáætlun um þessar mundir.

Hið nýja umhverfi fjarskiptanna leiðir af sér breytta aðkomu stjórnvalda að málaflokknum og tryggja verður laga- og viðskiptaumhverfi sem tekur mið af samkeppnisreglum. Það ættu háttvirtir þingmenn Samfylkingarinnar að þekkja allsæmilega. Gæta þarf jafnræðis og gagnsæis í ákvarðanatöku gagnvart fjarskiptafyrirtækjum og um leið leita leiða til að örva samkeppni.

Stjórnvalda er einnig að gæta hagsmuna og réttinda neytenda, stuðla að jöfnun verðs og tryggja almenna grunnþjónustu. Hin breytta fjarskiptalöggjöf takmarkar möguleika stjórnvalda til sértækra aðgerða eða til að stýra markaðsöflunum. Einnig takmarkast mjög möguleikar yfirvalda til þess að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtækin, aðrar en þær sem þegar er að finna í íslenskri löggjöf.

Ráðuneytið styður uppbyggingu aukinnar gagnflutningaþjónustu en hefur takmörkuð lögbundin úrræði til að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki umfram alþjónustu sem kveðið er á um í 19.–22. gr. fjarskiptalaganna. Þessi ákvæði gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þó má benda á að á Íslandi eru meiri kröfur lagðar á símafyrirtækin um gagnaflutningasambönd en þekkist nokkurs staðar annars staðar. Það hefur ef til vill verið sá aflvaki sem leitt hefur til þeirrar hörðu uppbyggingar sem orðið hefur.

Það er undir fjarskiptafyrirtækjunum sjálfum komið hvar uppbygging fer fram umfram alþjónustu. Í þessu sambandi er athygli fyrirspyrjanda vakin á 24. gr. fjarskiptalaganna um samtengingu neta og 34. gr. laganna um aðgang að heimtaug. Þessum ákvæðum er ætlað að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þau gera það að verkum að fleiri fyrirtæki eru í stakk búin til að verða við óskum neytenda um gagnaflutningaþjónustu.

Að lokum er rétt að vekja athygli á því að skipaður hefur verið stýrihópur til að hefja undirbúning að gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010. Með henni er stefnt að því að móta heildarstefnu í fjarskiptamálum okkar Íslendinga, m.a. til að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geti komið að frekari uppbyggingu í fjarskiptamálum, t.d. varðandi háhraðatengingar. Markmið áætlunarinnar er að leggja grunn að framþróun íslensks samfélags með því að bjóða bestu, ódýrustu og öruggustu rafrænu samskiptin með beitingu fjarskipta- og upplýsingatækni. Þetta verður m.a. gert með hliðsjón af nýrri stefnumótun forsætisráðuneytisins um upplýsingasamfélagið sem nefnist „Auðlindir í allra þágu — Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007“.

Stýrihópnum er m.a. ætlað að skoða og gera tillögur um stefnu stjórnvalda er varðar gagnaflutningstengingar á landsbyggðinni, m.a. með hvaða hætti stjórnvöld geti komið að málum þar sem uppbyggingu fjarskiptafyrirtækjanna sleppir. Stýrihópurinn mun skila tillögu að nýrri fjarskiptaáætlun innan skamms. Miðað er við að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi þegar að þeirri vinnu lokinni.