131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Háhraðatengingar.

188. mál
[15:54]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Þegar fólk velur sér búsetu nú til dags skiptir miklu máli hver þjónustan er á því svæði sem það veltir fyrir sér að búa á. Þegar ég tala um þjónustu á ég bæði við samgöngur, þjónustu sem sveitarfélagið veitir á staðnum og ekki síður hvernig gengur að komast í samband við upplýsingahraðbrautina í gegnum háhraðatengingar.

Ég verð að segja að svör samgönguráðherra vekja ekki bjartsýni hjá þeim sem búa á svæðum sem ekki hafa fengið slíka tengingu í dag.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji að auðveldara verði fyrir þessi svæði og íbúa þar að fá háhraðatengingu þegar búið verður að selja Símann, eins og núverandi ríkisstjórn vill gera, með grunnkerfinu eins og stendur til. Verður þá auðveldara, að hans mati, fyrir þá sem búa á þessum svæðum að fá slíka tengingu, fyrst það gengur alls ekki að fá hana hjá fyrirtæki sem er nánast 100% í ríkiseigu og skilar þúsundum milljóna í hagnað á hverju ári?