131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Háhraðatengingar.

188. mál
[15:58]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður nú að segjast eins og er, að það er næstum hlægilegt að hlusta á háttvirta þingmenn Samfylkingarinnar tala eins og þeir gera á sama tíma og þeir leggja á ráðin um inngöngu í Evrópusambandið. Svona tal væri afskaplega illa í samræmi við hugmyndafræðina um hið opna og frjálsa hagkerfi sem áhersla er lögð á þar.

Hið opinbera á að tryggja þjónustuna, segja menn. Það væri fróðlegt fyrir hv. þm. Björgvin Sigurðsson að rifja upp ræður sem þingmenn og ráðherrar Alþýðuflokksins fluttu m.a. þegar fjallað var um uppbyggingu dreifikerfis og raforkukerfis í sveitum. Þá voru ágætir þingmenn Alþýðuflokksins m.a. ráðherrar iðnaðarmála. Þá hefði væntanlega verið auðvelt að beita sér fyrir því að þessar hugsjónir næðu fram að ganga, að hið opinbera ætti að tryggja uppbyggingu raforkukerfisins í sveitum.

En lífið er ekki svo einfalt. Við erum enn að byggja upp raforkukerfið í landinu. Við erum enn að byggja upp vegakerfið í landinu. Við gerum það ekki allt á einni nóttu. Þessi þjóð hefur eflst á öllum sviðum og við höfum nýtt afl okkar og auð til að byggja upp fjarskiptakerfin. Í dag vinna fleiri en Síminn að fjarskiptauppbyggingunni. Henni sinna fleiri fyrirtæki, m.a. Og Vodafone, ágætt fyrirtæki. Síminn hefur síðan m.a. beitt afli sínu í þágu dreifbýlisins með því að fjárfesta í sjónvarpsfyrirtæki sem mun skapa möguleika á að byggja upp slíkar háhraðatengingar inn á hvert einasta heimili í landinu. Háttvirtir þingmenn Samfylkingarinnar ættu að koma til skjalanna og styðja þetta mikilvæga fyrirtæki okkar, Símann, í þeim aðgerðum sem munu leiða til þess, að ég tel, að auðveldara verður að leggja háhraðakerfi (Forseti hringir.) um landið allt, með því afli sem skapast við að selja (Forseti hringir.) sjónvarpsþjónustuna um land allt.