131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum.

117. mál
[18:00]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í Neytendablaðinu nýlega kom fram að áfengisgjald á Íslandi er með því hæsta sem gerist í Evrópu. Einnig kom fram að áfengisgjöld á léttvíni og bjór geta verið mörg hundruð prósentum hærri hér en í öðrum Evrópulöndum. Áfengisgjaldið sem rennur í ríkissjóð nemur yfir 80% af verðinu og af léttvíni og bjór renna um 65% af verðinu til ríkisins. Þegar litið er til áfengisgjalds og virðisaukaskatts er hlutur ríkisins í útsöluverði á áfengi 83%.

Á nýlegri ráðstefnu heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn var gerð samþykkt um áfengismál og því beint til norrænu ráðherranefndarinnar að lagðir verði háir skattar á áfengi á Norðurlöndunum. Norðurlandaþjóðirnar ætla að tala fyrir þessari stefnu innan Evrópusambandsins og á vettvangi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Í viðtali við hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, eftir ráðstefnuna var haft eftir honum að þetta feli í sér að menn vilji hækka skatta á áfengi.

Nú má spyrja, þar sem hátt áfengisverð er hér á landi og reyndar í Noregi einnig, hvort Ísland sé fyrirmyndin að þessari ákvörðun, þ.e. að áfengisskattar verði hækkaðir í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og að baki liggi rannsóknir um að hátt áfengisverð hafi leitt til minni áfengisneyslu hér en á hinum Norðurlöndunum. Nei, það er ekki svo, því að í skýrslu sem lögð var fyrir fund norrænu ráðherranna kom fram að áfengisneysla hafi aukist á síðustu árum í öllum löndunum, líka í Noregi og á Íslandi þar sem áfengisverð er mjög hátt.

Mín skoðun er sú að miklu vænlegra sé að draga úr áfengisneyslu með öflugu forvarna- og fræðslustarfi og að við þurfum að auka til muna fjármagn til að halda uppi forvarnastarfi ásamt neyslustýringu þar sem reynt verði að breyta neyslumynstri með lægra verði á bjór og léttvíni.

Því er spurt hversu miklu hvert ríki á Norðurlöndum verji til áfengis- og fíkniefnavarna.

Fyrir þennan fund í Kaupmannahöfn var haft eftir heilbrigðisráðherra að Norðurlöndin vilji samræma áfengisstefnuna. Í þeirri fyrirspurn sem ég hef nú lagt fyrir ráðherra spyr ég:

Hverjar voru tillögur Íslands á þessum fundum norrænu ráðherranna? Og þar sem markmiðið er að samræma áfengisstefnuna getur það varla eingöngu gilt um verðlagningu áfengis og því spyr ég einnig um skoðun hæstv. heilbrigðisráðherra á áfengiskaupaaldri. Vill hann að áfengiskaupaaldur verði samræmdur því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum og þá til lækkunar, eða felst samræmd áfengisstefna í því að hækka áfengiskaupaaldurinn annars staðar á Norðurlöndunum?

Reyndar ætti ráðherrann einnig að svara því, ef samræma á áfengisstefnuna, hvort heimila eigi sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum hér á landi eins og er víða annars staðar á Norðurlöndunum eða hvort til standi að hætta þeirri sölu annars staðar á Norðurlöndunum þar sem hún er nú leyfð.

Virðulegi forseti. Ég spyr því, og það er kjarni og tilefni fyrirspurnar minnar: Hvað á þessi samræming að ganga langt eða gildir hún bara um áfengisverðið, að það verði hækkað? Síðan legg ég áherslu á forvarnirnar eins og kemur fram í fyrirspurn minni.