131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum.

117. mál
[18:04]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Reykv. s. Jóhanna Sigurðardóttir spyr:

„Hverjar eru hugmyndir ráðherra um samræmda áfengisstefnu á Norðurlöndum og hverjar verða tillögur Íslands í því efni á aukafundi heilbrigðisráðherra Norðurlanda í október?“

Því er til að svara að mánudaginn 18. okt. sl. var haldinn í Kaupmannahöfn fundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda um áfengismál og stýrði ég þeim fundi sem fulltrúi Íslands. Á fundinum gerðist sá ánægjulegi atburður að ráðherrarnir samþykktu yfirlýsingu um áfengismál og töluðu þannig einum rómi í nokkrum meginatriðum. Í yfirlýsingunni hvetja ráðherrarnir til aukinnar samvinnu í áfengismálum á vettvangi Norðurlandanna. Þeir leggja áherslu á að löndin beiti sér ekki síst á vettvangi alþjóðlegra stofnana og samtaka fyrir því að ekki sé litið á áfengi sem hverja aðra vöru heldur vöru sem hefur bæði áhrif á heilbrigði þjóða og félagslegar aðstæður í löndunum. Ráðherrarnir benda sömuleiðis á að alþjóðavæðing og alþjóðleg viðskipti hafi torveldað löndunum að framfylgja áfengismálastefnu sem ákvörðuð er í hverju landi fyrir sig. Jafnframt lýsa ráðherrarnir yfir áhyggjum sínum af áhrifum aukinnar neyslu á lýðheilsu og undirstrika jafnframt samband áfengisneyslu og félagslegra afleiðinga.

Þá sammæltust norrænu ráðherrarnir um að vinna saman að því að halda fram heilbrigðissjónarmiðum og félagslegum sjónarmiðum á vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni og síðast en ekki síst í samskiptum sínum við Evrópusambandið. Í því sambandi samþykktu ráðherrarnir að hvetja til þess að Evrópusambandslöndin hækkuðu skattlagningu á áfengi í því skyni að draga úr neyslu og koma í veg fyrir misnotkun áfengis.

Hv. 2. þm. Reykv. s. spyr enn fremur:

„Hversu miklu á íbúa ver hvert ríki á Norðurlöndunum til áfengis- og fíkniefnaforvarna?“

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu háum upphæðum er á ári varið til áfengis- og fíkniefnaforvarna. Umrædd starfsemi er ekki aðeins hluti af starfsemi Lýðheilsustöðvar, SÁÁ og annarra samtaka heldur er hún verulegur þáttur í starfi heilsugæslu, sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Er þá átt bæði við 1. stigs og 2. stigs forvarnir.

Það er mat heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að árlega sé 8–10% af heilbrigðisútgjöldunum varið til forvarna og u.þ.b. einn þriðji hluti þeirra renni til áfengis- og vímuefnaforvarna. Þetta hlutfall er í stórum dráttum í samræmi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Virðulegi forseti. Loks spyr hv. 2. þm. Reykv. s.:

„Telur ráðherra að samræma eigi áfengiskaupaaldur því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum varðandi kaup á léttvíni og bjór þannig að hann verði 18 ár og mun ráðherra beita sér fyrir auknu fjármagni til forvarna ef sú leið verður valin hér á landi?“

Svarið við þessu er að ég tel ekki ástæðu til þess að lækka áfengiskaupaaldurinn hér á landi. Verði sú leið hins vegar valin á næstu árum eða á næstunni mun að sjálfsögðu verða að grípa til aðgerða í fræðslumálum og forvörnum til að sporna við aukinni áfengisneyslu.