131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum.

117. mál
[18:09]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er skrýtið þegar hlýtt er á orð síðasta ræðumanns að áfengisneysla unglinga skuli ekki vera minni hér á landi en annars staðar því að við erum með hærri áfengiskaupaaldur en aðrar Norðurlandaþjóðir, sem segir okkur hve lítil vörn er í því að miða áfengiskaupaaldurinn við 20 ár. Það eru aðrar leiðir sem þarf að fara til þess að breyta neysluvenjum og neyslumynstri unglinga hér.

En tilefni fyrirspurnarinnar sem hér var lögð fram var að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort samræma ætti áfengisstefnuna, eins og ummæli sem höfð voru eftir hæstv. ráðherra lýstu, að Norðurlöndin vilji samræmda áfengisstefnu. Það getur þá ekki gilt bara um verðið — ég veit ekki einu sinni hvort verðið á að lækka eða að hækka — á það alls staðar að hækka eða á það að lækka hér? Á að samræma áfengiskaupaaldurinn? Hvað þýðir „samræmd áfengiskaupastefna“? Þetta kom alls ekki fram hjá ráðherra þannig að ég er engu nær og lýsi vonbrigðum með það og ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvernig eigi að samræma áfengisstefnuna á Norðurlöndum. Mér finnst hæstv. ráðherra skulda okkur að það komi hér fram.

Ég spyr ráðherrann t.d. um það sem ég nefni „áfengi í búðir“, þ.e. léttvín og bjór. Er hann fylgjandi því að við leyfum hér áfengi í búðir, léttvín og bjór, eins og er annars staðar á Norðurlöndunum víðast hvar, eða ætla önnur Norðurlönd að hætta að hafa áfengi í búðum þannig að hægt sé að samræma þetta? Ég lýsi því hér yfir að ég er ekki sammála því að áfengiskaupaaldurinn verði lækkaður á sama tíma og léttvín og bjór verði sett í búðir. Það þarf að líða töluvert langt þar á milli svo hægt verði að meta reynsluna af þessu. Ég legg áherslu á að við setjum verulegt fjármagn í þetta hvað forvarnir varðar og ég fagna því að hæstv. ráðherra mun styðja við bakið á okkur hér á þinginu um að það verði gert ef leiðin verður sú að lækka áfengiskaupaaldurinn. (Forseti hringir.)

En ég ítreka spurningu mína til ráðherra: Hvernig á að samræma þessa áfengisstefnu fyrir öll Norðurlöndin? Ráðherrann hefur ekki svarað því, virðulegi forseti.