131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sementsverð á landsbyggðinni.

152. mál
[18:37]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Á þskj. 152 hefur hv. þm. Sigurjón Þórðarson beint til mín svohljóðandi fyrirspurn:

„Hefur það gengið eftir, sem fram kom í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 63/2004, að hækkun sementsverðs á landsbyggðinni yrði að líkindum óveruleg þótt hætt yrði að jafna flutningskostnað á sementi?“

Svarið hljóðar svo:

Eins og fram kemur í fyrirspurn var flutningsjöfnun á sementi aflögð þann 1. júlí 2004. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hefur verið frá Byggðastofnun hefur verð á sementi breyst sem hér segir á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Er annars vegar miðað við 1. október 2003 og hins vegar 1. september 2004:

Í Stykkishólmi hefur verð á sementi í pokum staðið í stað en verð á lausu sementstonni lækkað um 6%. Á Ísafirði hefur verð á sementi í pokum hækkað um 6% en verð á lausu sementstonni lækkað um 2%. Á Sauðárkróki hefur verð á sementi í pokum hækkað um 25% en verð á lausu sementstonni lækkað um 3%. Á Akureyri hefur verð á sementi í pokum hækkað um 6% en verð á lausu sementstonni hækkað um 5%. Á Húsavík hefur verð á sementi í pokum hækkað um 6% en verð á lausu sementstonni lækkað um 4%. Á Raufarhöfn hefur verð á sementi í pokum hækkað um 72%, þar er ekki steypustöð og því ekki kostur á lausu sementi. Á Reyðarfirði hefur verð á sementi í pokum hækkað um 17% en verð á lausu sementstonni hækkað um 5%. Á Egilsstöðum hefur verð á sementi í pokum hækkað um 6% en verð á lausu sementstonni hækkað um 11%. Í Vestmannaeyjum hefur verð á sementi í pokum hækkað um 59% og verð á lausu sementstonni hækkað um 13%. Á Selfossi hefur verð á sementi í pokum hækkað um 6% en verð á lausu sementstonni lækkað um 5%.

Þess má geta að í Reykjavík hafa verðbreytingar á sama tímabili verið þannig að verð á sementi í pokum hefur hækkað um 6% en verð á lausu sementi hefur staðið í stað.

Samkvæmt framansögðu er óhætt að segja að verð á lausu sementi hefur ekki breyst ýkja mikið og víðar lækkað en hækkað. Verð á sementi í pokum hefur víðast hækkað um 6%, sem skýrist af hækkuðum framleiðslukostnaði. Fyrir utan almennar verðlagshækkanir er framleiðslukostnaður sements töluvert háður verðlagi á olíuvörum sem eins og kunnugt er hafa hækkað gríðarlega að undanförnu.

Þar sem hækkanir hafa orðið hvað mestar á flutningskostnaði sements í pokum, eins og til Raufarhafnar, Vestmannaeyja og Sauðárkróks, er skýringanna ekki að leita í afnámi flutningsjöfnunarinnar þar eð sú flutningsjöfnun sem til staðar var nam miklu lægri upphæð en sú hækkun sem orðið hefur á sementsverðinu. Þá gefa útgefnar gjaldskrár flutningsaðila á tímabilinu ekki heldur tilefni til slíkra hækkana. Hitt ber að hafa í huga að miklu máli skiptir varðandi flutningskostnaðinn hversu mikið magn er flutt í einu. Þannig er verð samkvæmt gjaldskrá eins flutningsaðila kr. 6,11 á kíló ef flutt eru 10–20 tonn af sementi en verð á kílói er 67% hærra ef flutt eru innan við 2 tonn.

Samkvæmt því sem að framan er sagt er ljóst að víðast hvar hefur afnám verðjöfnunar á sementi ekki leitt til þeirrar verðhækkunar sem nokkrir hv. þingmenn óttuðust að yrði við umræður um frumvarp til laga um afnám flutningsjöfnunar á sementi. Nú er þess að gæta að ekki eru liðnir nema fáir mánuðir frá því að flutningsjöfnunin var lögð niður. Þess vegna er rétt að bíða með að draga endanlegar ályktanir um það hvaða áhrif verða til lengri tíma litið.

Hitt er ljóst að enn þá bendir ekkert til þess að afnám flutningsjöfnunar leiði til tuga prósenta verðhækkana á sementi eins og spáð var í þingsölum.