131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sementsverð á landsbyggðinni.

152. mál
[18:45]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel mikilvægt að koma þessum upplýsingum inn í umræðu um það hvernig verð hefur þróast og hversu mikill munur er þar á. Ég tel að það orðalag sem hv. þm. notaði í fyrirspurn sinni sé rétt, það var talað um „óverulega hækkun“. Ég hef aldrei haldið því fram að það yrði ekki einhver hækkun miðað við það að leggja niður þessa jöfnun. Það sem ég fór yfir áðan í sambandi við laust sementstonn eða sölu á sementi í lausu tel ég að geti flokkast undir óverulega hækkun. Í einstaka tilfellum er hins vegar um verulega hækkun að ræða þar sem verið er að tala um pakkað sement.

Hér blandast inn umræða um flutningsjöfnun sem sumir kalla svo. Ég vil ekki nota það orðalag, frekar styrki vegna flutningskostnaðar, og það er það fyrirkomulag sem hefur verið skoðað af hálfu iðnaðarráðuneytisins. Í sjálfu sér er ekkert nýtt að frétta af því. Það mál er í vinnslu. Ég er að tala um tillögur upp á 200 millj. kr. þannig að ég ætla ekki að gefa neinum vonir um að fyrsta skref verði hærri upphæð en því nemur. Ég vonast til þess að þarna náist árangur og ég heyri að við erum sammála um það, a.m.k. við þrjú sem tökum þátt í þessari umræðu, að þetta sé mikilvægt mál. Ég mun halda áfram að vinna að því.