131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Blönduvirkjun.

196. mál
[18:47]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Í Skagafirði eins og víðar á landsbyggðinni hefur fólk áhyggjur af atvinnumálum. Ríkisstjórnin hefur að mínu mati og fjölmargra annarra sýnt að hún sinnir byggðamálum mjög illa og byggðamál og atvinnumál á landsbyggðinni fléttast saman. Það kom skýrlega í ljós í skýrslu um framvindu byggðamála að ekki er mikill metnaður hvað varðar byggðamál vegna þess að þar vantaði t.d. allar upplýsingar um mælistærðir, upplýsingar um hvernig menn meti framvindu byggðamála, svo sem um íbúaþróun og fjölgun eða fækkun starfa. Skagfirðingar hafa viljað komast á kortið hjá hæstv. iðnaðarráðherra hvað varðar atvinnumál en hún hefur vísað þeirri gagnrýni á bug að hún sinni Skagafirði lítið. Hún vísar til þess að í Skagafirði séu ósættir um virkjunarmál og segir að það komi í veg fyrir að hægt sé að skoða iðnaðarkosti á svæðinu.

Ég hef staðið í þeirri trú um langt skeið að í Skagafirði eða á Norðurlandi vestra sé umframorka, bæði tel ég að Blönduvirkjun hafi ekki verið fullnýtt og síðan hafi orkan verið flutt í burtu af svæðinu. Þess vegna vil ég beina eftirfarandi tveimur spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hefur afkastageta Blönduvirkjunar verið fullnýtt sl. ár og ef ekki, hversu hátt hlutfall af framleiðslugetu virkjunarinnar hefur verið nýtt?

2. Hversu mikilli orku sem Blönduvirkjun framleiðir var veitt í aðra landshluta en Norðurland vestra, hversu mikill hluti orkunnar tapast í flutningi suður á land, t.d. í Hvalfjörð, og hversu mikil orka er notuð í Skagafirði?

Ég tel það þurfa að koma upp á borð í umræðunni að um langt skeið hefur verið hægt að stinga í samband iðnaðarkosti á Norðurlandi vestra, að orka sem hafi verið framleidd þar hafi ekki verið nýtt á svæðinu, hafi þvert á móti verið í stórum mæli flutt í burtu. Þess vegna tel ég ekki rétt að blanda t.d. virkjun Skatastaða — sem mun e.t.v. ekki færa mörg störf inn í héraðið hvort eð er — inn í umræðu að svo miklu leyti sem gert hefur verið um atvinnumál í Skagafirði. Ég tel fróðlegt að fá svör við þessum tveimur spurningum sem ég bar upp til að umræðan verði markvissari.