131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Blönduvirkjun.

196. mál
[18:50]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur lagt fyrir mig spurningu sem hljóðar svo: „Hefur afkastageta Blönduvirkjunar verið fullnýtt sl. ár og ef ekki, hversu hátt hlutfall af framleiðslugetu virkjunarinnar hefur verið nýtt?“

Meðalafkastageta Blönduvirkjunar er í dag um 800 gígavattstundir á ári. Afkastageta hvers árs er háð því hve mikil úrkoma er á vatnasvæðum og sólbráð jökla að sumarlagi. Undanfarin ár hafa verið hagstæð vatnsbúskap þjóðarinnar, miðlanir virkjana hafa nýst að fullu og raunar hefur töluvert umframrennsli verið fyrir hendi umfram miðlunargetu.

Á síðasta ári var framleiðsla Blönduvirkjunar 928 gígavattstundir sem er 128 gígavattstundum meiri orka en reiknuð orkugeta virkjunarinnar telst hafa verið. Á árinu 2002 var framleiðslan tæpar 900 gígavattstundir og á árinu 2001 var framleiðslan um 730 gígavattstundir. Ástæðan fyrir mikilli framleiðslu á síðustu árum hefur verið sú að þau hafa verið góð vatnsár og reynt hefur verið að reka virkjunina á sem mestu afli að sumarlagi til að koma í veg fyrir og draga úr rennsli á yfirfalli síðari hluta sumars. Er það gert til að koma til móts við hagsmuni fiskveiðimanna í neðri hluta árinnar.

Síðari spurningin er svona: „Hversu mikilli orku sem Blönduvirkjun framleiðir var veitt í aðra landshluta en Norðurland vestra, hversu mikill hluti orkunnar tapast í flutningi suður á land, t.d. í Hvalfjörð, og hversu mikil orka er notuð í Skagafirði?“

Mestur hluti af orku Blönduvirkjunar fer til raforkunotkunar sunnan lands. Á árinu 2003 voru um 9% af orku virkjunarinnar, þ.e. 80 gígavattstundir, notuð á Norðurlandi vestra. Þar af voru notaðar 50 gígavattstundir í Skagafirði og heildarraforkunotkun í Skagafirði fyrir utan Fljót og Siglufjörð er í dag um 56 gígavattstundir þannig að segja má að Skagfirðingar hafi fengið alla sína orku frá Blönduvirkjun. Töp við flutning frá Blöndu að Brennimel í Hvalfirði voru rúm 6%.

Af því að tíma mínum er ekki alveg lokið held ég áfram og bregst við ýmsu sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan þegar hann mælti fyrir fyrirspurninni. Hann talaði nokkuð fjálglega um slælega framgöngu mína og ríkisstjórnarinnar í sambandi við byggðamál. Ég vil nota tækifærið og mótmæla því þar sem ég tel að vel hafi verið staðið að málum þó að alltaf megi gera betur. Þegar hv. þingmaður talar um að í raun þyrfti ekki annað en að stinga í samband í Skagafirði eða á Norðurlandi vesta vegna þess að þar sé nægileg orka verður a.m.k. að vera til staðar kaupandi til þess að orkan fari í þá átt. Hann er ekki til staðar í dag og þess vegna er þessi orka flutt suður á land, suður í Hvalfjörð.

Það má líka taka fram að flutningskerfið ber ekki miklu meira á þessu svæði og þyrfti að taka á því ef um það væri að ræða að flytja orku frá Blöndu í Skagafjörð eins og hv. þingmaður ýjaði að. Þetta eru sem sagt allt mál sem er full ástæða til að ræða og er eðlilegt að hv. þingmaður hafi áhuga á atvinnumálum í kjördæmi sínu.