131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:15]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Góðgjarn maður sagði mér einhverju sinni að það væri ágæt regla að reyna jafnan að finna það sem jákvætt væri í málflutningi manna og sannast sagna var ég staðráðinn í að hlusta á ræðu hæstv. utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, með þetta í huga. Aldrei hefði mig órað fyrir að ráðherrann mundi leggja eins þunga þraut fyrir okkur sem viljum hlýða á hann með því hugarfari og raun ber vitni. Ég er að sjálfsögðu sammála hæstv. ráðherra um sitthvað, um mikilvægi þess að styrkja samstarf og vináttubönd við Færeyinga og Grænlendinga, að styrkja stöðu Íslands sem ferðamannalands, að standa vörð um náttúruauðlindir landsins en þegar kemur að utanríkismálunum almennt og utanríkisstefnu þjóðarinnar finnst mér það vera umhugsunarvert og hryggilegt á hve fáum sviðum ríkisstjórninni hefur tekist að skapa breiða samstöðu um stefnumál sín.

Unnið er að því að Íslendingar fái sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sannast sagna má ég ekki til þess hugsa að við förum með þá stefnu sem hér er boðuð inn í það ráð.

Það deilir enginn um að við lifum á viðsjárverðum tímum. Mjög alvarlegir atburðir hafa gerst í heiminum og hafa Íslendingar komið þar nærri í mörgum tilvikum. Staðreyndin er sú að við tengjumst bandarískri utanríkisstefnu sífellt nánari böndum. Þetta er nokkuð sem við ráðum ekki að öllu leyti og vísa ég þar í áherslubreytingar sem orðið hafa innan NATO sem í veigamiklum atriðum hefur endurskilgreint hlutverk sitt. Í stað þess að áherslan sé á að verjast árásum á landsvæði aðildarríkja bandalagsins er nú áhersla á að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn aðilum sem hætta er talin vera á að ógni hagsmunum og öryggi aðildarríkjanna. Þar eiga náttúrlega fyrst og fremst Bandaríkin í hlut en hagsmuna sinna þurfa Bandaríkin að gæta í öllum heimshornum nú um stundir, ekki síst í Miðausturlöndum þar sem harðvítug átök hafa staðið um verðmætar náttúruauðlindir.

Árásirnar á Afganistan og Írak voru liður í því hagsmunastríði. Smám saman hefur verið að koma á daginn að árásin á Írak átti sér mun lengri aðdraganda en bandarísk stjórnvöld vildu vera láta, en þegar árið 1998 skrifuðu margir helstu ráðgjafar núverandi Bandaríkjaforseta forvera hans á forsetastóli bréf og hvöttu til innrásar í Írak í þágu bandarískra olíuhagsmuna. O´Neill, fyrrum fjármálaráðherra Bush og fyrrverandi forstjóri Alcoa, maður sem seint verður sakaður um vinstri villu hefur staðhæft að strax í upphafi stjórnarferils síns hafi Bush verið staðráðinn í að láta til skarar skríða gegn Írak. Síðan þekkja allir framvinduna.

Eftir hryðjuverkin í New York og Washington í september árið 2001 breyttist málflutningur Bandaríkjastjórnar og var utanríkisstefnan hér eftir réttlætt í ljósi hættunnar af hryðjuverkum. Ráðist var á Afganistan haustið 2001 og Bandaríkjastjórn reyndi að fá öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja árás á Írak vegna meintrar hættu sem stafaði af gereyðingarvopnum Saddams Husseins í Írak. Síðan var málflutningnum breytt lítillega í þá veru að það væri harðstjórinn Saddam Hussein sem verið væri að losa sig við.

Nú hefur komið á daginn að staðhæfingar um vopnabirgðir Íraka voru byggðar á lygum og fölsunum og reyndar var það svo að Bandaríkjamenn réðust á Írak án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Það var vissulega vísað í fyrri samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en árásin var ekki gerð með samþykki Sameinuðu þjóðanna eða öryggisráðsins.

Flestir þeir sem til þekkja harma hvernig málum er komið í Írak. Bandarískir læknar staðhæfðu fyrir fáeinum dögum að yfir 100 þúsund manns, þar af yfir 50 þúsund konur og börn, hafi látið lífið eftir innrásina og er ekki séð fyrir endann á átökum þar. Margt bendir til þess að átökin fari vaxandi og verði enn illvígari og blóðugri. Við þekkjum frásagnir af pyndingum í bandarískum herfangelsum og flest höfum við lesið frásagnir um hörmungar og hrylling sem þrífst í skugganum af styrjöld. Hatri hefur verið sáð til framtíðar.

Við sjáum hvað nú er að gerast í Falluja. Vígasveitir hafa komið sér fyrir í borginni og er bandaríski herinn og innlent herlið að reyna að ná tökum á henni. Það var einnig reynt fyrir fáeinum mánuðum eftir að fjórir bandarískir hermenn höfðu verið drepnir og lík þeirra svívirðilega meðhöndluð. Bandaríkjaher gerði þá hefndarárás á borgina, fólk var drepið af handahófi, 700 manns, konur og börn, lágu í valnum eftir þá árás. Áhrifarík mynd greyptist þá í huga minn. Það var grátandi faðir sem hélt á líki dóttur sinnar sundurskotnu. Hann sagðist mundu hefna hennar. Ég efast ekki um að hann mun reyna að gera alvöru úr hótun sinni, því miður. Þannig heldur hringekja hatursins áfram að snúast.

Heimurinn stendur nú frammi fyrir því að reyna að lægja þetta ófriðarbál. Forsenda þess að það takist er sú að menn horfist í augu við staðreyndir, viðurkenni mistök sín og leiti síðan eftir víðtækri sátt um framhaldið. Á Vesturlöndum er víða vilji til þessa. Ekki hjá ríkisstjórn Íslands.

Hæstv. utanríkisráðherra vék orðum að Írak. Hann sagði að íslensk stjórnvöld væru sem fyrr á þeirri skoðun að rétt hafi verið að gera innrásina í Írak. Hann segir enn fremur að þegar innrásin var gerð hafi almennt verið uppi grunsemdir í garð Íraksstjórnar varðandi framleiðslu gereyðingarvopna. Ekki orð af hans hálfu um hvað síðar kom á daginn.

Enn fremur segir hæstv. utanríkisráðherra í ræðu sinni að enginn geti með sanngirni haldið öðru fram en að írakska þjóðin sé betur sett nú en undir Saddam Hussein. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Hæstv. utanríkisráðherra segir enn fremur að átökin í Írak snúist í rauninni ekki um dvöl erlends herliðs í landinu heldur um hvort komið verði á lýðræðislegri stjórnskipan. Snúast átökin ekki um þetta? Er þetta sú mynd sem hæstv. ráðherra hefur í sínum huga? Trúir hann því virkilega að enginn sé andvígur veru hernámsliðsins í landinu og að átökin snúist ekki að hluta til um það?

Síðan segir hæstv. utanríkisráðherra að meinfýsnishlakkandi úrtölumenn víða um heim hafi einblínt á erfiðleika sem vissulega sé við að etja í Írak. Ég ætla ekki að eyða frekari orðum að þessu þegar menn reyna að slá sig til riddara með strákslegu og óábyrgu tali af þessu tagi. Þetta er ódýrt tal um alvarlega atburði.

Hvað segir hæstv. utanríkisráðherra um atburðina í Palestínu? Yasser Arafat er fallinn frá. Helsti kyndilberi frelsisbaráttu Palestínumanna er fallinn í valinn. Hæstv. ráðherra sendi palentínsku þjóðinni samúðarkveðjur. Ég tek undir þær. Hann sagði síðan, með leyfi forseta:

„Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur tekið frumkvæði að brottflutningi Ísraelsmanna frá Gaza-svæðinu þrátt fyrir harða pólitíska andstöðu heima fyrir. Þetta gæti orðið fyrsta skrefið að nýjum samningaviðræðum um brottflutning frá hernumdum svæðum á Vesturbakkanum og stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Frumkvæði Sharons er í andstöðu við afstöðu og gjörðir leiðtoga Palestínumanna sem hafa hvorki ráðist gegn samtökum hryðjuverkamanna né unnið bug á langvarandi spillingu innan palestínsku sjálfsstjórnarinnar. Nú er orðið ljóst að uppreisn Palestínumanna sem hófst fyrir fjórum árum hefur unnið málstað og hagsmunum þeirra gríðarlegt tjón.“

Hvernig hófst uppreisnin? Eru menn búnir að gleyma því? Eru menn búnir að gleyma því þegar Sharon, núverandi forsætisráðherra, þá í stjórnarandstöðu, fór fyrir 2–3 þúsund manna liði á Musterishæðina í Jerúsalem þar sem Al-Aqsa moskan er til þess beinlínis að ögra Palestínumönnum? Barak var þá forsætisráðherra í landinu og er greinilegt að það voru samantekin ráð með þeim um hvernig brugðist skyldi við ef Palestínumenn létu á sér kræla og brygðust við. Herþyrlur voru komnar í loftið fáeinum mínútum eftir að viðbrögð komu fram af hálfu Palestínumanna. Síðan hefur staðið yfir borgarastyrjöld, mörg þúsund manns hafa fallið í valinn úr liði Palestínumanna, um 3–4 þúsund óbreyttir borgarar, Ísraelsmenn einnig, 700–800 manns a.m.k. hafa fallið í blóðugum og illvígum átökum. Og það á að vera hlutverk þjóða heimsins að reyna að finna leiðir til að lægja öldurnar.

Yasser Arafat var málsvari hinna hófsömu afla í Palestínu. Hann átti við öfl að stríða sem vildu ekki viðurkenna Ísraelsríki. Yasser Arafat tók þá ákvörðun að viðurkenna Ísrael og fallast á grænu línuna svokölluðu sem varð til eftir hin blóðugu átök 1948–1949, landamærin sem Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna, sem er aðeins 22%, rúmlega fimmtungur af fyrrum landi Palestínumanna. Innan raða Palestínumanna eru hópar sem ekki vilja fallast á þetta. Og nú tekur hæstv. utanríkisráðherra undir með þeim öflum sem segja: Yasser Arafat og sveitir hans verða ekki trúverðugar fyrr en þær láta til skarar skríða gegn þessum öflum. Þetta vita allir sanngjarnir menn að er ávísun á borgarastríð í Palestínu.

Ég ætla að leyfa mér að vísa í mjög athyglisverða frétt í Morgunblaðinu frá 7. október þar sem vitnað er í einn helsta ráðgjafa Sharons í Ísrael. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Hið raunverulega markmið Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, með því að flytja burt herinn og gyðingabyggðirnar frá Gaza er að koma, með samþykki Bandaríkjastjórnar, endanlega í veg fyrir stofnun palestínsks ríkis. Kom þetta fram í gær í viðtali við Dov Weisglass, einn helsta ráðgjafa Sharons og tengilið hans gagnvart bandarískum stjórnvöldum.

Talsmaður Sharons ítrekaði í gær að hann styddi Vegvísinn, áætlunina um frið í Miðausturlöndum, en vísaði orðum Weisglass ekki á bug að öðru leyti. Weisglass sagði einnig að Ísraelsstjórn forðaðist viðræður við Palestínumenn vegna þess að hún vildi ekki láta neyða sig til að gefa eftir í málum eins og um framtíð Jerúsalem og réttindi nokkurra milljóna palestínskra flóttamanna.“

Vonandi er þetta rangt. Hitt er rétt og staðreynd sem við getum ekki horft fram hjá, að á Vesturbakkanum hefur verið reistur kynþáttamúr, aðskilnaðarmúr, sem hefur þrengt að landsvæði Palestínumanna. Í ljósi þess sem þarna er að gerast og þeirra þrenginga sem bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn hafa þurft að ganga í gegnum á undanförnum árum og áratugum, þá er þetta óábyrgt framlag, þá er þetta óábyrg umræða.

Afganistan. Þar er allt í blóma og lukkunnar velstandi. Er það? Ég kem að því nánar í seinni ræðu minni. Ég vildi að umræðan væri miklu lengri um þessi mál.