131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:30]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi að vitur maður hefði ráðlagt honum í eina tíð að reyna jafnan að finna jákvæða punkta í ræðum manna, andstæðinga sem annarra. Hann fer ekki mjög oft eftir ráðum þess vitra manns vegna þess að honum er mikið niðri fyrir. Mér finnst svo sem ekkert að því að menn nýti tíma sinn til að draga fram andstæður. En hv. þm. sagði jafnframt að í ræðu utanríkisráðherrans, sem hér stendur, væri forðast að reyna að leitast við að ná fram breiðri samstöðu um utanríkismál.

Ef maður horfir hins vegar af hreinskilni til háttvirts ræðumanns þá gerir hann ekkert með breiða samstöðu. 80% þjóðarinnar styður veru okkar í NATO. Ætti ekki þingmaðurinn að hlaupa til, taka þátt í hinni breiðu samstöðu og vera með okkur í því? Ónei, hann gerir ekkert með þá breiðu samstöðu og er bara á sínu eigin róli í þeim efnum.

Hv. þm. sagði meira að segja efnislega: Hvers konar rugl er það að írakska þjóðin sé betur sett nú en undir stjórn Saddams Husseins? Ég hygg að það sé breið samstaða um allan heim um að svo sé, hvað sem menn segja um innrásina. En hv. þm. gerir ekkert með þá breiðu samstöðu. Hann er einn af örfáum mönnum í heiminum sem virðist telja, hér í þjóðþinginu, að írakska þjóðin væri betur sett undir ógnarstjórn Saddams Husseins sem sannarlega lét drepa 300 þúsund eigin þegna og startaði styrjöldum sem höfðu í för með sér að 1 milljón manna lést.