131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:34]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stundum vilja hv. þm. og Vinstri grænir skýla sér á bak við ályktanir og ákvarðanir Sameinuðu þjóðanna, eða a.m.k. fara eftir því sem þær ákveða og annað sé ómögulegt. Nú er það svo að fjölþjóðlegi herinn í Írak er þar í umboði Sameinuðu þjóðanna. Öryggisráðið hefur samþykkt að svo lengi skuli herinn vera sem bráðabirgðastjórnin í Írak eða ný stjórn sem síðar verður kjörin óskar þess. Því vill ekki hv. þm. una þótt það sé í umboði Sameinuðu þjóðanna. Það hentar ekki núna.

Hv. þm. var svo seinheppinn að nefna þá kenningu Vinstri grænna, sem hér var mjög haldið uppi, að viðskiptabannið sem var áður en þessir atburðir urðu, til að reyna að þvinga Saddam Hussein til samvinnu, hefði leitt til þess að fjöldi barna hefði látist og þess háttar. En hvað gerðist við innrásina? Það fundust milljarðar dollara í reiðufé í höllum Saddams Husseins sem Íraksstjórn hefði að sjálfsögðu getað notað til að líkna börnum og sjúkum í Írak, milljarðar dollara í kjöllurum halla Saddams Husseins. Þannig var ekki hægt að kenna öðrum þjóðum um í því efni.

Varðandi það sem hann sagði um bandaríska lækna þá á hann væntanlega við grein í breska læknatímaritinu Lancet þar sem framreiknaðar voru tölur um manntjón á tilteknum stöðum og útfærðar yfir allt Írak. Þessar tölur og framreikningar hafa verið dregnir mjög í efa. Menn tala fremur um 15 þúsund manns heldur en 100 þúsund manns í því sambandi. Allt er það mikið hvort sem það eru 15 þúsund eða 100 þúsund. En samt er það meira að segja óverulegt miðað við þau ósköp sem einræðisherrann í Írak hafði stefnt yfir þjóð sína.