131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að í ræðu sinni nefndi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hversu EES-samningurinn hafi verið mikilvægur. Ég er því alveg hjartanlega sammála. Ég átti sæti í utanríkismálanefnd er unnið var við EES-samninginn og tók þátt í vinnunni. Ég sat m.a. í utanríkismálanefnd heilt sumar við að vinna að þessum málum. Það var alveg ljóst að átök voru um samninginn eins og þingmaður nefndi og það var mjög athyglisvert fyrir okkur sem höfðum lagt mikinn kraft og tíma í vinnuna við þennan samning og höfðum svo mikla trú á því hvaða þýðingu hann hefði í framtíðinni og á komandi árum fyrir Ísland, að verða vitni að því að Framsóknarflokkurinn klofnaði í þessu máli. Hann klofnaði ekki í einhverja hjásetu og stuðning heldur í að vera á móti og að sitja hjá. Helmingurinn af þingflokknum undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar rausnaðist til að sitja hjá í þessu mikilvæga máli.

Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn unnu að þessu máli og börðu það fram. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þeir hafi barið það fram.

Ekki njóta alltaf allir ávaxtanna af verkum sínum. En öllum varð ljóst á komandi árum, og það hefur hæstv. núverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson margsinnis sagt í þessum stól, að sú velferð sem við höfum búið við á liðnum árum og uppbyggingin sem varð í þessu landi á tíunda áratugnum hafi orðið vegna Evrópska efnahagssvæðisins og aðildar okkar að þeim samningi.

Þess vegna mun ég aftur og aftur nota tækifærið þegar talið berst að honum og minna á hvernig hann varð til, minna á samstöðuna sem var meðal sumra í þessum sal þá um að koma honum á og segja að það var ekki af því að Framsóknarflokkurinn fór í ríkisstjórn að hér varð meiri velmegun og uppbygging heldur vegna þess að unnið var að Evrópska efnahagssvæðinu.