131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:59]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög mikil einföldun að halda því fram að allt sem vel hefur tekist til hér sé út af EES-samningnum. Hann á sitt en hann á ekki allt. Ég tel að þátttaka Framsóknarflokksins í ríkisstjórn hafi haft mjög mikið að segja.

En það er rétt sem hér hefur komið fram að hluti Framsóknarflokksins á sínum tíma studdi EES-samninginn en hluti ekki og þetta var erfitt mál. Ég man eftir mjög skemmtilegum umræðum um EES-samninginn á flokksþingi á sínum tíma. Það var mikill hiti í fólki. Sumir töldu að hér yrði mikill innflutningur á fólki og að land yrði keypt upp, Íslendingar mundu ekki geta veitt í sínum laxveiðiám o.s.frv. Þetta var mjög svartmálað hjá hluta þingfulltrúa á meðan aðrir töldu að þetta væri mikið tækifæri til þess að efla íslenskt samfélag og ég held að þeir hafi haft rétt fyrir sér.

Það er a.m.k. mitt mat að það var mjög gott að við fórum inn í EES-samninginn á sínum tíma. Ég vil líka benda á að það var stór Evrópunefnd sem vann að því innan Framsóknarflokksins fyrir ekki mjög löngu síðan hvernig við ættum að skoða framtíðina varðandi tengsl okkar við Evrópusambandið. Niðurstaðan í þeirri nefnd var að númer eitt ætti að viðhalda EES-samningnum. Ef það tækist ekki ætti að skoða aðild. Þriðji og sísti kosturinn var tvíhliða samningur milli ESB og Íslands. Þessi niðurstaða sýnir mér að Framsóknarflokkurinn er mun jákvæðari gagnvart Evrópusamstarfi núna en hann var á sínum tíma.