131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:22]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefðu verið ankannaleg og ómálefnaleg mótmæli ef við hefðum mótmælt æfingum Rússa í norðurhöfum sem þeir tilkynntu okkur með lögboðnum fyrirvara og fengu samþykki fyrir því af okkar hálfu og Norðmanna að þeir mættu njóta hér skjóls ef áhætta kæmi.

Á hinn bóginn komu fram athugasemdir af hálfu utanríkisráðuneytisins, vegna þess að viðveran var þetta löng á sama stað á ákveðnum fiskislóðum við norðausturhorn landsins, og óskað var eftir upplýsingum um viðverutíma, brottfaratíma og allt þess háttar og ástæðu fyrir því að flotinn héldi kyrru fyrir. Við gengum eftir slíkum svörum bæði hér og eins í Moskvu. Utanríkisþjónustan fylgdi því málinu eftir af fullkominni festu en auðvitað innan ramma þjóðarréttarins, enda værum við ekki tekin hátíðlega ef við ætluðum að haga okkur með þeim hætti að viðbrögð okkar samrýmdust ekki þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist.