131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:24]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það hefði heldur betur komið hljóð í strokkinn ef floti hefði t.d. lagst í 30 km fjarlægð frá ströndum Noregs og legið þar í hálfan mánuð. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefði allt orðið vitlaust í Noregi hefði það gerst og Norðmenn hefðu mótmælt kröftuglega. Ég hygg að aðrar þjóðir hefðu gert það líka. Ef flotinn hefði allt í einu lagst við festar t.d. við Skotland, legið þar í hálfan mánuð og stundað þar heræfingar er ég ansi hræddur um að það hefði vakið mikla alþjóðlega athygli og breska ríkisstjórnin hefði reynt að beita Rússa þrýstingi til að skipin færu á brott því það stafar hætta af þessum flota, sérstaklega hvað varðar slysahættuna. Það er ekki á þá treystandi. Dæmin hafa því miður sýnt það. Það eru ótal dæmi um að Rússar hafi lent í vandræðum með herskip sín í Norður-Atlantshafi og í raun og veru mikil mildi að ekki skuli hafa farið illa. Þarna var alla vega eitt kjarnorkuknúið skip sem mjög sennilega var búið kjarnorkuvopnum og ólíklegt að ætla að Rússar sendi jafnöfluga flotadeild út í svo langan tíma án þess að sú flotadeild sé búin öflugustu vopnum sem til eru ef ske kynni að það brytist út styrjöld eða einhvers konar hættuástand í heiminum á meðan flotinn væri á hafi úti. Það er því mjög erfitt að ímynda sér annað en það hafi stafað raunveruleg hætta af flotanum og enn og aftur ítreka ég að mér finnst að við ættum að segja það við Rússa og láta það í ljós að við séum alls ekki sátt við að hafa fengið þessa heimsókn.