131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:43]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að sumu leyti eins og umræðan hefur stundum verið í sambandi við Evrópumálin. Það er verið að vitna til tiltekinna ummæla tiltekinna embættismanna og tiltekinna sérfræðinga á þessu sviði en auðvitað verðum við fyrst og fremst að horfa til þeirra yfirlýsinga sem liggja fyrir af hálfu bandarískra stjórnvalda og þau eru mjög afdráttarlaus. Bandarísk stjórnvöld hafa talað mjög afdráttarlaust um að þau telji sig hafa tilteknar varnarskuldbindingar gagnvart Íslendingum. Við vitum að varnarsamningurinn er af því taginu að honum verður ekkert sagt upp einhliða. Við höfum vitanlega gríðarlega sterka stöðu og þær viðræður sem hafa farið fram á æðstu stigum milli hæstv. þáverandi forsætisráðherra og Bandaríkjaforseta og þær viðræður sem nú eru fram undan milli hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisráðherra Bandaríkjanna benda til þess að á bak við þær sé fullkomin alvara. Ekkert gefur okkur tilefni til þess að tala um þessi mál með neinum öðrum hætti.

En mér finnst mikil ástæða til að undirstrika það, og ég lagði mikla áherslu á það í máli mínu áðan, að gerbreytt viðhorf ríkir í varnarmálaumræðunni hér á landi vegna þess að svo er að tveir af þeim stjórnarandstöðuflokkum sem hér hafa talað hafa frekar hvatt til þess að auka varnarviðbúnað hér á landi og kvarta undan því að hann sé ekki nægjanlegur. Þetta eru ákveðin þáttaskil. Hv. þingmaður er með tali sínu núna fyrst og fremst að leggja áherslu á það, ef ég skil hana rétt, að við eigum að halda uppi mjög sterkum varnartengslum við Bandaríkin og er þar með náttúrlega að klippa á og mótmæla með þessum hætti sjónarmiðum sem hafa komið fram innan hennar eigin flokks um að hverfa eigi frá varnarskuldbindingum við Bandaríkin og leggja fremur áherslu á einhvers konar aðrar varnarskuldbindingar og talað er með þeim hætti að það sé samrýmanlegt íslenskum hagsmunum að hverfa frá varnarskuldbindingunum milli Íslands og Bandaríkjanna.