131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:50]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í andsvar við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vegna ummæla hans um hið meinta góða aðgengi okkar að ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Ég vil byrja á að vitna í skýrslu utanríkisráðherra frá því árið 2000 þar sem segir um einmitt það atriði, með leyfi forseta:

„Í grófum dráttum má segja að aðgangur íslenskra stjórnvalda að mótun ákvarðana sé mestur í upphafi, á undirbúningsstigi og þegar mál eru enn í höndum sérfræðinga. Eftir því sem ofar dregur í stjórnsýslu og almenn pólitísk sjónarmið koma til sögunnar minnkar aðgangur og er enginn á þeim vettvangi þar sem endanlegar ákvarðanir eru teknar.“

Þetta, virðulegi forseti, er viðurkennt af utanríkisráðuneytinu árið 2000. Síðan þá hafa orðið miklar breytingar á framkvæmd samningsins og í dag, þ.e. samkvæmt EES-samningnum, á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að tala máli EFTA-ríkjanna. Nú hafa miklar breytingar orðið á valdastrúktúr Evrópusambandsins. Vægi Evrópuþingsins og ráðherraráðsins hefur aukist en að þeim höfum við ekki beinan aðgang í gegnum EES-samninginn.

Ég vildi benda hv. þm. á þetta. Staðan er ekki júbílerandi góð eins og hann vill gefa í skyn. Að auki er staðan sú að í gegnum EES-samninginn þurfa Íslendingar að taka við allri löggjöf um innri markaðinn, sem er ekkert smáræði. Menn hafa mælt það þannig að um 70–80% af öllum lagagerðum Evrópusambandsins sé að ræða. Hér er um stórmál að ræða og verulegan lýðræðishalla EFTA-stoðarinnar gagnvart Evrópusambandinu.