131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:54]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að Evrópusambandið er að taka miklum breytingum, hreinum stakkaskiptum ef svo má að orði komast, sérstaklega vegna stækkunarinnar. Auk þess eru að myndast við Evrópusambandið fleiri sameiginlegir fletir og samstarfið að verða þéttara. Það er að aukast og samstarfssviðum að fjölga.

Ég get ekki frekar en hv. þm. sagt mikið um inngöngu í Evrópusambandið á skömmum tíma, eða einni og hálfri mínútu sem ég hef núna. Ég ætla að gera það í ræðu á eftir og færa fyrir því rök hvers vegna við eigum að ganga þar inn. Ég tel að við eigum að gera það.

Af því að við höfum verið að ræða lýðræðishallann þá vil ég koma inn á að fræðimenn, m.a. einn ágætur fræðimaður sem hefur sérstaklega sérhæft sig á sviðum Evrópufræða, vara við því að hugsanlega brjóti EES-samningurinn og framkvæmd hans í dag gegn 21. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. fullveldisákvæðinu. Ég ætla að vitna í ákveðinn kafla í grein eftir Eirík Bergmann Einarsson, sem heitir „Blikur á lofti – áratugur í EES“. Með leyfi forseta þá hljómar þessi kafli svona:

„Við gerð EES komst nefnd fjögurra sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins að þeirri niðurstöðu að hann bryti ekki fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, en það var þó afar umdeilt meðal fræðimanna. Í 21. grein stjórnarskrárinnar segir: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“ Færa má rök fyrir því að þróunin á rekstri samningsins hafi undanfarin ár verið með þeim hætti að hann takmarki fullveldi Íslands meira nú en í upphafi og brjóti orðið fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.“

Þannig hljóða skrif, hæstv. forseti, virts fræðimanns á þessu sviði sem við eigum að skoða og taka fullt mark á.