131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:19]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á þriðjudaginn var var kynnt í Reykjavík skýrsla um loftslagsbreytingar á norðurslóðum eða réttara sagt niðurstöður þeirrar skýrslu. Fréttir af skýrslunni eru þessar helstar: Loft hlýnar ákaflega hratt við norðurskaut. Breytingarnar hér eru miklu meiri en áður var haldið og það er margvísleg hætta á ferðum fyrir norðurskautssvæðið, fyrir Ísland og fyrir veröldina alla.

Einnig kemur fram í niðurstöðum skýrslunnar og í þeim rannsóknum og umræðum sem fram hafa farið hjá vísindamönnum, að viðbrögð okkar skipta verulegu máli. Það er ekki okkar bara að bíða og biðja, ekki að liggja á bæn eða kasta ónotum að skýrslunni eða því sem verða vill heldur skiptir öllu máli hvort hlýnunin verður við lágmark þess sem spáð er eða við hámarkið. Það getur skipt öllu máli samkvæmt niðurstöðum þeirra 300 vísindamanna frá 8 löndum og að auki 6 frumstæðum þjóðum sem kallaðar eru hvernig við bregðumst við í veröldinni allri.

Það hafa verið miklar fréttavikur á Íslandi hefur okkur þótt, þessi og sú sem síðast leið, en það er spá mín, og ég held að hún sé ekki frumleg, að sú frétt sem lengst lifir af öllum þeim fréttum sé fréttin af loftslagsskýrslunni sem kynnt var í Reykjavík. Ég hyggst verja ræðu minni eingöngu í það efni, þótt hin yfirgripsmikla skýrsla hæstv. utanríkisráðherra gefi vissulega tilefni til margra ræðna. Mér þykir athyglisvert að í ræðu sinni, ég veit að hann þarf að fara hratt yfir, segir hæstv. utanríkisráðherra aðeins eina setningu um þetta, á bls. 9 í textanum sem dreift var. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Annað dæmi af störfum ráðsins“ — Norðurskautsráðsins — „er skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.“

Þó er það svo, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti m.a., að hinn 24. nóvember næstkomandi er fundur utanríkisráðherra ríkjanna í Norðurskautsráðinu og í undirbúningi er yfirlýsing fyrir þann fund.

Í bandaríska blaðinu Washington Post birtist 4. nóvember, á fimmtudaginn var, frétt um að Bandaríkjastjórn hygðist ekki samþykkja hvatningu um aðgerðaáætlun eða framkvæmdaáætlun í yfirlýsingunni. Í blaðinu var sérstaklega nefndur textinn sem Bandaríkjastjórn leggst gegn. Hann er hér í þýðingu minni, með leyfi forseta:

„Norðurskautsráðið hvetur aðildarríkin til þess að ákveða aðgerðaáætlun vegna loftslagsbreytinganna hvert fyrir sig og sameiginlega þegar það á við. Þessar aðgerðir verða að beinast að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.“

Í sömu frétt ber ónafngreindur embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu það fyrir sig að Bandaríkjastjórn vilji ekki taka þátt í stefnumótun á vegum Norðurskautsráðsins heldur eingöngu á vettvangi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna, UNFCCC, eins og það er skammstafað að enskum hætti. Þetta virðist vera hægt að skýra þannig að Bandaríkjastjórn sé á ákveðinn hátt að bakka frá hinni hörðu línu sinni gagnvart þessum málum þegar hún er orðin fréttnæm, en við vitum að Bandaríkjastjórn, eins og áður hefur verið rakið, hefur dregið lappirnar í þessum málum öllum undir núverandi forustu og m.a. ekki undirritað Kyoto-bókunina sem nú er hins vegar að ganga í gildi.

Bandaríkjastjórn virðist ekki vera vel við neikvæðar fréttir af málinu og virðist bregðast við þrýstingi. Haft er eftir Dobriansky varautanríkisráðherra í sama blaði að skýrslunni sé ekki lokið og hún hafi ekki verið send ríkisstjórnunum, sem er klassísk bírókratísk afgreiðsla þegar maður hefur engu að svara. Það er ekki ljóst hvað hún á við. Skýrslan var auðvitað komin, samantektin eða niðurstöðurnar eru Bandaríkjastjórn algerlega ljósar enda hefur hún, eins og Paula Dobriansky bendir á, kostað skýrsluna að töluverðum hluta og að henni vinna margir bestu vísindamenn Bandaríkjanna á þessu sviði. Þetta virðist vera einhvers konar fyrirsláttur.

Við fréttum Washington Post og fleiri blaða og fjölmiðla og umsagnir áhrifamanna hefur Bandaríkjastjórn enn brugðist og fyrir nokkrum dögum var gefin út yfirlýsing í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Það gerði Richard Boucher sem þar er upplýsingafulltrúi. Í henni er slegið úr og í og sagt m.a. að Bandaríkjastjórn styðji sumar tillögurnar í stefnudrögunum og sé að íhuga aðrar. Bendir því margt til þess að Bandaríkjastjórn sé á einhvers konar hreyfingu í þessu efni, að henni þyki þrýstingurinn óþægilegur, henni finnist ekki gott að koma fram á vettvang heimsmálanna sem sá sem ekki vill hreyfa sig í þessum málum, sem sá sem vill halda áfram að menga en ekki bregðast við.

Þrýstingurinn kemur ekki aðeins utan frá, hann kemur líka innan frá og nefna má tvo kollega okkar, sem við könnumst við úr fréttum, sem hafa lýst því yfir að Bandaríkjastjórn beri að taka aðra afstöðu í þessu efni og hafa þeir hvatt ríkisstjórnina í Washington til þess að taka þátt í aðgerðum til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru þeir John McCain sem var hér um daginn, repúblikani frá Arizona, og Joe Lieberman, varaforsetaefni í þarsíðustu kosningum, demókrati frá Connecticut.

Það er athyglisvert og merkilegt við skýrsluna að með henni og næstum einróma undirtektum við hana í vísindasamfélaginu ætti að vera frá vafi um loftslagsbreytingar af manna völdum, sem var e.t.v. réttmætur fyrir áratug og eðlilegt að menn hefðu þá uppi í ljósi þess gangs sem þá var á málinu. En afstaða Bandaríkjastjórnar byggist nú sem fyrr á því að ekki séu nægileg vísindagögn fyrir hendi. Ég nefni áratug en þó eru held ég ekki liðin nema sex ár frá því að þáverandi forsætisráðherra, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, bar fram svipuð rök um loftslagsbreytingar í almennri samfélagsumræðu hér. Ég man ekki hvort það var í áramótaræðu, þingræðu eða á öðrum vettvangi en ég man mjög glöggt að hann gerði það. Ég taldi að hann, eins og aðrir, hefði breytt afstöðu sinni með þeirri þróun sem orðið hefur í vísindarannsóknum og umræðu um þessi mál og menn eru menn að meiri þegar þeir gera það í ljósi þeirra staðreynda sem fram eru komnar og þeirra upplýsinga sem smám saman breyta þeim grunni sem menn standa á við slíka afstöðu. Þess vegna kom það mér á óvart að mér virtist að ráðherrann hefði ekki gætt nægilega að þessum staðreyndum í andsvari sínu áðan, en ég tel að hann hafi kannski ekki sagt sitt síðasta orð um þetta.

Hins vegar brá mér líka við að heyra hæstv. umhverfisráðherra í ríkisstjórn Íslands vera með svipaðar skoðanir uppi í vikunni, einmitt við upphaf þeirrar vísindaráðstefnu þar sem skýrslan var kynnt. Þar sagði hæstv. umhverfisráðherra þetta í þýðingu Vefþjóðviljans, því ræðan var flutt á ensku, þegar hún talar um áhrifin sem fram undan séu vegna loftslagsbreytinganna, með leyfi forseta: „Hversu mikil þessi áhrif eru og hve miklar loftslagsbreytingarnar verða er enn háð mikilli óvissu. Loftslag jarðar er flókið kerfi sem háð er mörgum þáttum.“

Ég kýs líka að afgreiða þetta sem einhvers konar misskilning hjá hæstv. umhverfisráðherra eða handvömm því að tveir Íslendingar sem framarlega standa í þessum málum hafa talað öðruvísi. Annar þeirra er Gunnar Pálsson, diplómat og forustumaður í Norðurskautsráðinu fyrir Íslands hönd. Hann sagði í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum, í þýðingu minni, með leyfi forseta:

„Niðurstöðurnar úr hinni væntanlegu vísindarannsókn Norðurskautsráðsins eru þær að hiti eykst helmingi hraðar við norðurskaut en að heimsmeðatali. Jöklar bráðna og gjörvallt vistkerfið er að breytast sífellt hraðar. Séu spár ACIA nákvæmar, sem öll rök hníga til,“ — segir Gunnar Pálsson. Á ensku: ,,as we have every reason to believe they are“ — þá virðist norðurskautssvæðið verða undanfari heimsbyggðarinnar allrar í þeim breytingum sem vænta má.“

Hinn Íslendingurinn sem ég nefni til er fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, sem sagði fyrir mjög skömmu á þingi Norðurlandaráðs. Það er enn mín þýðing, nú úr dönsku, með leyfi forseta:

„Norðurskautssvæðið stendur nú frammi fyrir alvarlegustu og hröðustu loftslagsbreytingum nokkru sinni.“ — Á dönsku: „de alvorligste og mest accelerende klimaændringer nogen sinde“.

„Þær“ — þ.e. loftslagsbreytingarnar — „eiga eftir að hafa gífurlegar afleiðingar.“ — Á dönsku: „drastiske“ — „Bæði vistfræðilegar, efnahagslegar og félagslegar,“ segir Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra. „Það er því eðlilegt að þær valdi miklum áhyggjum, ekki síst fyrir okkur sem byggjum norðurskautssvæðið.“

Vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra er á leiðinni á fund utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna og vegna þess að áður en það gerist verður hæstv. utanríkisráðherra — að ég hygg á þriðjudaginn í næstu viku, 16. nóvember — í Washington á fundi með Colin Powell, óska ég eftir að hann svari þremur spurningum og að hann sjái sér fært að svara þeim nú, að gefnu tilefni:

1. Hver er afstaða hæstv. utanríkisráðherra til hins umdeilda kafla í yfirlýsingardrögunum um að aðgerðirnar verði að beinast að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda?

2. Hyggst ráðherrann ræða þetta mikilvæga mál á fundi sínum með Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hinn 16. nóvember nk.?

3. Hafa íslensk stjórnvöld hvatt stjórnina í Washington til að undirrita Kyoto-bókunina eða hyggjast þau gera það?

Til þess gefst einkar gott tækifæri 16. nóvember, einkum í því ljósi að eitt af erindum Tonys Blairs, forsætisráðherra Breta, til Washington þessa dagana er samkvæmt fréttum í breskum fjölmiðlum, ég vitna í leiðara Guardian í dag, að reyna að snúa Bandaríkjamönnum til réttrar stefnu í málinu.

Að lokum vil ég segja, vegna þess að mér heyrðist hæstv. utanríkisráðherra vitna í Svíann Mörner sem var hér fyrir nokkrum dögum með kenningar um sólarhita o.s.frv., að enn finnast vissulega menn í vísindaheiminum — og það er jákvætt og gott að ekki skuli vera þar einróma samstaða, einhver talkór, þannig eiga vísindin ekki að vera — enn finnast þeir menn sem efast um þetta og telja að hér sé að mestu um náttúrulegar breytingar að ræða. Hins vegar er sú skoðun í þeim geira vísindanna sem fjallar um þetta svið fullkomin minnihlutaskoðun.

Það er misskilningur, sem vert er að leiðrétta úr þessum stól, að Mörner hinn sænski hafi verið hér á vegum Veðurstofunnar. Það var hann ekki þó að hann flytti einhvers konar ræðu á fundi hjá Félagi íslenskra veðurfræðinga, heldur virðist hann hafa verið hér á vegum einstaklinga úr Félagi frjálshyggjumanna eða á vegum fjölmiðilsins Vefþjóðviljans, sem hefur einmitt sagt mjög dyggilega frá heimsókn hans. Þetta var aðeins til að rétt skyldi vera rétt.