131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:37]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær viðræður sem fyrir dyrum standa við utanríkisráðherra Bandaríkjanna munu í meginatriðum snúast um varnarmálin. Af minni hálfu er óskað eftir þessum fundi til að fjalla um þau. Það hefur þó verið nefnt úr báðum áttum, bæði af okkur og eins bandaríska utanríkisráðherranum, að við áskiljum okkur rétt til þess eftir því sem tíminn leyfir — þessir fundir eru yfirleitt frekar stuttir — að taka upp önnur mál. Meginverkefnið er samt þetta þannig að ég skal ekki segja til um hvaða tími verður fyrir annað.

Við höfum verið í forustu fyrir þeirri vinnu sem hér hefur verið unnin. Hv. þm. nefndi sérstaklega þau orð sem sendiherrann Gunnar Pálsson hefur látið frá sér fara. Auðvitað gerir hann það í umboði Íslands, ekki er um að ræða persónulegar skoðanir sendiherrans þegar hann flytur ræðu af þessu tagi, heldur er hann þá að tala í umboði íslenskra stjórnvalda og hann hefur talað mjög skýrt í þeim efnum.