131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:40]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ræða hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál var um margt sérstök. Það er greinilegt að andi Bush svífur yfir vötnunum, heimurinn er svart/hvítur og hlutirnir annaðhvort góðir eða illir.

Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra vopnlausrar þjóðar flytur slíka ræðu á þjóðþingi þar sem fram að þessu hefur verið fylgt þeirri stefnu að þjóðin skuli ekki bera vopn á aðrar þjóðir. Eina haldbæra skýringin sem ég finn fyrir slíkri ræðu er að hæstv. utanríkisráðherra er að undirbúa fund. Hann er að undirbúa fund sem hann mun eiga með Colin Powell í næstu viku, hann er einfaldlega að tala upp í eyrun á hæstv. utanríkisráðherra Bandaríkjamanna í þeim tilgangi að fá gott veður í viðræðunum.

Ísland er fámenn þjóð og hefur gefið sig út fyrir að vera friðsöm. Ein mikilvægasta ákvörðun í utanríkismálum sem Íslendingar hafa tekið var innganga Íslands í varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO. Íslendingar settu þó eitt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðildinni en það var að Ísland mundi aldrei taka beinan hátt í hernaðaraðgerðum. Ég tel að mikil sátt hafi ríkt í þjóðfélaginu um framangreint atriði. Í ljósi þess er óskiljanlegt að hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra hafi brotið lög í ákafa sínum þegar þeir settu Íslendinga á lista yfir þær staðföstu og viljugu þjóðir sem studdu árásina á Írak. Nú hefur komið í ljós að árásin á Írak var gerð á fölskum forsendum þar sem engin gereyðingarvopn fundust í Írak. Auðvitað ættu íslensk stjórnvöld að fá viðhlítandi skýringar á því hvers vegna þau voru teymd á upplognum forsendum á lista yfir viljugar og staðfastar þjóðir.

Það er rétt sem fram kemur í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að írakska þjóðin var vægast sagt illa sett með Saddam Hussein í forsæti. Hins vegar er rétt að taka það fram að það er afar mikil einföldun sem fram kemur í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að írakska þjóðin sé betur sett nú en hún var undir Saddam Hussein. Þessi fullyrðing lýsir svart/hvítu viðhorfi sem á sjaldan við og örugglega ekki í Írak. Eflaust er ástandið mun betra á einhverjum svæðum svo sem í Norður-Írak þar sem Kúrdar eru fjölmennir og voru kúgaðir í valdatíð Saddams Husseins. Ástandið í kringum Bagdad er þó mun verra og þarf ekki frekari vitnanna við en að hlusta á fréttir þessa dagana. Þar ríkir algjör óöld, stríð geisar í Falluja, í landinu eru í gildi herlög, stöðugar sprengjuárásir, sjálfsmorðsárásir, gíslatökur og í raun algjör viðbjóður.

Sömu einföldun má sjá í ræðunni um átök Palestínumanna og Ísraela. Sharon, forsætisráðherra Ísraels, er lýst sem manni friðarins sem fer gegn almenningasálitinu í Ísrael, manni sem hafi tekið frumkvæðið að brottflutningi landnema eða landtökumanna á Gaza-svæðinu. Leiðtogar Palestínumanna eru hins vegar gerðir einhliða ábyrgir fyrir átökunum vegna þess að þeir hafi hvorki ráðist gegn samtökum hryðjuverkamanna né heldur unnið bug á spillingu. Auðvitað er algjör firra að varpa allri ábyrgðinni á hendur Palestínumönnum. Sjaldan veldur einn er tveir deila og ég held að það eigi vel við í þessu máli. Það er óumdeilt að Ísraelsmenn eru þeir sem eru meiri máttar í þessari deilu og hafa sýnt fádæma hörku gagnvart palestínskum almenningi.

Með þessum orðum er ég alls ekki að draga úr ábyrgð forustu Palestínumanna. Með framtaksleysi sínu hafa þeir ekki beitt nógu miklum aðgerðum gegn viðbjóðslegum sjálfsmorðsárásum. Hvað sem því líður hafa Bandaríkjamenn haldið hlífiskildi yfir harðlínustefnu Sharons og eru því miður að uppskera í samræmi við það. Þeir eru ótrúverðugir í augum múslima og að einhverju leyti má skýra þá miklu andstöðu sem er í Írak með aðgerðum eða aðgerðaleysi Bandaríkjamanna gagnvart Ísraelsmönnum.

Við Íslendingar eigum að leggja okkar af mörkum til alþjóðasamfélagsins en við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum fámenn þjóð og við verðum að velja verkefni þar sem við höfum eitthvað fram að færa.

Í máli hæstv. utanríkisráðherra kom fram að Ísland sé að kanna hvernig Íslendingar geti komið að þjálfun írakskra öryggissveita. Það er algjör fásinna að velja sér slíkt verkefni og það er sagt með fullri virðingu fyrir sérsveit ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Ég tel engan vafa á því að við gætum lagt meira af mörkum á ýmsum öðrum sviðum en með þjálfun öryggissveita Íraks.

Herra forseti. Ísland sækist eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samanstendur af fimm þjóðum sem hafa fast sæti og 10 til viðbótar sem eru kosnar á allsherjarþingi til tveggja ára í senn. Skipan öryggisráðsins endurspeglar valdahlutföll eins og þau voru í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Ríkin fimm sem eiga fastafulltrúa eru sigurvegararnir og þau hafa neitunarvald. Kjörnu þjóðirnar 10 skiptast hnattrænt á milli þjóða þannig að heimshlutarnir eiga sína fulltrúa og Íslendingar eiga kost á tveim sætum sem Vestur-Evrópu eru ætluð.

Helsta hlutverk ráðsins er að varðveita heimsfriðinn og stuðla að friðsamlegum lausnum deilumála. Öryggisráðinu er ætlað að rannsaka sérhverja deilu eða ástand sem getur leitt til alþjóðlegra átaka, leita sátta og gera tillögur um lausn deilumála. Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er ætlað að úrskurða um hvort ófriðarhætta sé fyrir hendi, friðarrof eða árás. Í framhaldi af þeim verkefnum sem öryggisráðinu er ætlað að fara í, þ.e. að beita þvingunum, setja á viðskiptabann og jafnvel að grípa til hernaðaraðgerða, er rétt að fara yfir það hvort við Íslendingar eigum sérfræðinga á sviði þeirra mála sem örygggisráðinu er ætlað að fjalla um, þ.e. á sviði hernaðar, alþjóðamála á helstu átakasvæðum heimsins. Ég efast um það. Eigum við sérfræðinga á sviði öryggismála í Miðausturlöndum, Vestur-Afríku eða Asíu?

Ísland á að axla ábyrgð og velja sér verkefni þar sem sérfræðiþekking þjóðarinnar nýtist en ekki að vera með afskipti þar sem þekking og afl er takmarkað. Af nægum verkefnum er að taka. Ríki heims settu sér m.a. þúsaldarmarkmið sem ætlað var að ná fram fyrir árið 2015. Þau miða að því að eyða fátækt og hungri, draga úr misskiptingu tekna í heiminum, efla menntun, bæta heilsufar og vinna að jafnrétti kynjanna. Ég tel miklu nær að við veljum okkur þau verkefni en að vera í verkefnum sem við ráðum lítt við. Mér finnst það mun eðlilegra og ég tel að við getum lagt mun meira af mörkum til þeirra verkefna en að taka þátt í að ákveða hvaða ríki eigi að beita þvingunum.

Hvað leggur Ísland til þróunaraðstoðar? Jú, ein ríkasta þjóð heims leggur til um 0,16% af landsframleiðslu sinni. Þrír áratugir eru síðan aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ákváðu að iðnríkin skyldu veita 0,7% af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar. Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að stórauka eigi framlagið til þessa málaflokks — það er vel og ber að þakka það — en þó ekki meira en svo að það á að fara í 0,35% af landsframleiðslu. Ég tel að þarna eigum við að beita okkur en ekki á sviði öryggisráðsins þar sem við höfum takmarkaða þekkingu.

Ef litið er til þröngra hagsmuna Íslands um ávinning af því að fá aðild að öryggisráðinu er hætta á því að Ísland geti einungis tapað á því. Hætt er við að Ísland þyrfti að byggja að miklu leyti á upplýsingum frá vinaþjóðum við ákvarðanatöku, svo sem frá Bandaríkjamönnum. Einnig er einsýnt að það þjóni vart pólitískum hagsmunum þjóðarinnar að fara gegn Bandaríkjunum, ég efast a.m.k. um það.

Ef litið er til utanríkisstefnu Bandaríkjanna síðustu ár hefur hún verið nokkuð herská og skapað mikla óvild í garð Bandaríkjanna og þeirra ríkja sem fylgja Bandaríkjamönnum hvað fastast eftir. Ég tel óráðlegt að setja þjóðina í eldlínu, sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar hafa takmarkaða sérfræðiþekkingu á þeim málum sem öryggisráðinu er ætlað að fjalla um.

Að lokum ætla ég að fjalla um það jákvæða í skýrslunni sem er ýmislegt. Sérstaklega vil ég taka fram að mér finnst mjög jákvæð sú breyting sem hefur orðið á síðustu árum, og verður vonandi áfram, að það eigi að efla samskipti við nágrannaþjóðir okkar, Grænlendinga og Færeyinga. Það er eitt af því sem Íslendingar ættu að leggja mun meiri áherslu á. Þótt ákveðin áherslubreyting hafi orðið á síðustu árum má gera enn betur. Ég er á því að við getum líka lært mjög margt af Færeyingum, t.d. hvað varðar auðlindastjórnun. Við ættum að skiptast á upplýsingum varðandi stjórn fiskveiða. Færeyingar geta örugglega miðlað til okkar enda hefur stjórn á fiskveiðum gengið mun betur þar en hér.

Í Færeyjum er botnfisksafli í sóknarkerfi og hefur verið það undanfarin ár, mun betri. Fróðlegt væri að fá afstöðu hjá hæstv. utanríkisráðherra hvað varðar þau mál því að mér skilst að það hafi einmitt verið á borði ríkisstjórnarinnar að gera úttekt á færeyska fisveiðistjórnarkerfinu. Það kemur fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að það eigi að efla samskipti við Grænlendinga og Færeyinga. Hér hefur okkur greinilega mjög mistekist með okkar kerfi, hér er þorskafli einungis helmingurinn af því sem hann var fyrir daga kvótakerfisins en Færeyingum gengur mun betur. Væri þá ekki einmitt ráð hjá íslensku utanríkisþjónustunni — sem er stöðugt að eflast og þangað fara æ meiri peningar — að kanna einmitt þetta? Þarna gæti orðið uppspretta mikils auðs hjá íslensku þjóðinni ef okkur tækist að gera betur en okkur hefur gert. Okkur hefur greinilega mistekist við okkar stjórnun og nú er lag að fara yfir það hjá nágrannaþjóðunum sem hefur tekist betur upp og læra af þeim.