131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:55]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Staðreyndirnar tala sínu máli, herra forseti. Það voru engin gereyðingarvopn í Írak og það er það sem málið snýst um. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, stóð ansi tæpt þegar verið var að kafa ofan í málið. Þegar Hutton-skýrslan kom fram stóð hann ansi tæpt.

Mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra ætti einmitt að skoða hvers vegna Ísland fór á þennan lista. Var það ekki á þeim forsendum að gereyðingarvopn væru í Írak? Það var ekki á þeim forsendum að Saddam Hussein væri vondur stjórnandi, alls ekki.