131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:56]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert og heilmikil lexía út af fyrir sig að frá því að allir þessir atburðir gerðust hafa farið fram kosningar í tveimur af þeim þremur ríkjum sem lögðu hvað mestan herafla til innrásarinnar og þess árangurs að steypa Saddam Hussein af stóli, Ástralir, Bandaríkjamenn og Bretar. Í báðum þessum löndum, Ástralíu og Bandaríkjunum, hafa stjórnendur landsins aukið fylgi sitt og stuðning meðal þjóðarinnar, í Bandaríkjunum á öllum sviðum, ekki bara forsetinn heldur einnig í þinginu sem studdi forsetann.

Reyndar virðist það vera svo í Bretlandi að Íhaldsflokkurinn breski, sem studdi innrásina á sínum tíma en er nú svona að hvika frá afstöðu sinni, fær ekki stuðning með það verkefni sitt hjá bresku þjóðinni. Svo virðist vera, ef marka má kannanir, að Blair forsætisráðherra muni vinna þriðju kosningarnar í röð í framhaldi af afskiptum sínum af þessu stríði.

Íslensk stjórnvöld tóku afstöðu opinskátt tveimur mánuðum fyrir kosningar, hún var mikið rædd í kosningabaráttunni og ríkisstjórnin hélt velli. Á öllum þessum svæðum þar sem þjóðin hefur talað hafa stjórnvöldin haldið velli. Þeir sem trúa á lýðræðið og lýðræðislega afstöðu kjósendanna í landinu ættu að hugleiða þessar niðurstöður.