131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:58]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Úrslit kosninga hér og þar í heiminum breyta ekki sannleikanum eða staðreyndunum í þessu máli. Það verður hæstv. utanríkisráðherra að sætta sig við. Hver svo sem úrslitin eru í kosningunum í Bandaríkjunum, Bretlandi eða Ástralíu tala staðreyndirnar sínu máli hvað varðar gereyðingarvopnin í Írak. Það voru engin gereyðingarvopn í Írak og fölsunum var nánast beitt til að fara í þetta stríð.

Ef við tölum samt um kosningar voru líka kosningar á Spáni og þar var nú einn aðalhvatamaðurinn að því að fara í þetta stríð, félagi hæstv. utanríkisráðherra hvað það varðar, og hann fór hrikalega illa út úr þeim kosningum. Við skulum minnast þess líka og halda því til haga hér.