131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:14]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kallaði sjálfa sig friðarsinna og ég efast ekkert um að þingmaðurinn sé það. Vonandi hefur það hins vegar ekki falið í sér að gagnálykta mætti sem svo að aðrir væru það ekki. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að Ísland hafi lagt sitt af mörkum til að skapa friðvænlegri heim með því að styðja afstöðu NATO og Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, með því að styðja afstöðu NATO og Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Hersegóvínu, með því að styðja afstöðu NATO og Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, með því að styðja afstöðu bandalagsríkjanna í Írak og nú þá afstöðu Sameinuðu þjóðanna að þar skuli vera herlið staðsett svo lengi sem Írakar óska eftir því sjálfir meðan þeir eru að koma á lýðræði í landinu.

Ég tel að afstaða þeirra sem kalla sig friðarsinna, sem ekkert af þessu vildu gera, geti ekki verið líkleg til þess að efla frið í heiminum. Ef ástandið væri enn þá eins og það var í Kosovo og Bosníu-Hersegóvínu áður en þessir aðilar gripu inn í, ástandið eins og það var í Afganistan áður en Sameinuðu þjóðirnar og NATO gripu inn í, ástandið eins og það var í Írak áður en bandalagsþjóðirnar gripu þar inn í væri ástandið verra. Þeir aðilar eru hinir sannkölluðu friðarsinnar sem þar eru á ferðinni.

Menn nota orð með ýmsum hætti. Chamberlain var kallaður friðarsinni en Winston Churchill var kallaður stríðsæsingamaður. Hvor skyldi hafa lagt meira af mörkum til friðar, Chamberlain friðarsinni eða stríðsæsingamaðurinn Winston Churchill?