131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hvernig hæstv. ráðherra nefnir í þessu andsvari sínu ævinlega Sameinuðu þjóðirnar og hernaðarbandalagið NATO í sama orðinu segir sína sögu. Það segir þá sögu að hernaðarbandalagið NATO hefur í gegnum Bandaríkin beitt óæskilegum áhrifum sínum í Sameinuðu þjóðunum. Þetta vita auðvitað allir. Bandaríkjamenn hafa beitt ofurvaldi sínu í öryggisráðinu, neitunarvaldi sem og annars konar valdi, til þess að knýja fram ályktanir sem hægt er að heimfæra síðan á þann hátt sem hæstv. utanríkisráðherra gerir, að Sameinuðu þjóðirnar standi við bakið á öllu þessu starfi hernaðarbandalagsins NATO.

Auðvitað er þetta óæskilegt og auðvitað er þetta ekki siðferðilega sterkt. Þetta er siðferðilega mjög veikt. Ef Sameinuðu þjóðirnar fengju að standa heilar að starfi sínu án áhrifa frá hernaðarbandalaginu NATO er ég sannfærð um að margt væri öðruvísi í þessum heimi. Ég er sannfærð um að afskipti Sameinuðu þjóðanna af friðarmálum í veröldinni væru þá önnur og á öðrum nótum en þau eru í dag. Ég er sannfærð um það að þau afskipti hefðu ekki það hernaðaryfirbragð sem þau hafa í dag.

Ég veit að innan Sameinuðu þjóðanna er sú umræða núna í fullum gangi hvernig hægt sé með einhverjum ráðum að gera Sameinuðu þjóðirnar trúverðugri á vettvangi friðargæslu og á vettvangi friðarmála. Auðvitað eiga friðargæsla og friðarmálin heima á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það verður þá að frábiðja sér skemmdarverk á borð við þau sem NATO hefur verið að stunda innan Sameinuðu þjóðanna með Bandaríkin í broddi fylkingar.