131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:18]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum ekki annað en að fara í gegnum söguna og þá áttum við okkur á því að Sameinuðu þjóðirnar voru að hluta til stofnaðar sem hernaðarbandalag. Þjóðabandalagið sem var við lýði milli stríðsáranna hafði skort þá möguleika að stilla til friðar með hernaði, með hernaðaríhlutun. Það var nákvæmlega það sem Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar til að gera umfram Þjóðabandalagið. Stóra aðgerðin og sú frægasta sem Sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir var Kóreustyrjöldin, þegar útþensla kommúnista var stöðvuð í Suður-Kóreu af herjum hinna Sameinuðu þjóða. Það voru Sameinuðu þjóðirnar sem ráku það stríð undir fána sínum þó að auðvitað kæmu margar þjóðir að, og ekki síst Bandaríkjamenn lögðu þar til herafla.

Á þessu varð sem sagt meginbreyting og menn gleyma því stundum. Stundum hentar að vera á móti Íraksstríðinu af því að Sameinuðu þjóðirnar báru ekki gæfu til þess að standa allar saman að lokum þrátt fyrir að ýmsar ályktanir væru samt til staðar.

Það er síðan ekki látið duga þegar Afganistan á í hlut að þar var farið fram undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Nú er starfsemin í Írak undir merkjum Sameinuðu þjóðanna að því leyti að þær hafa samþykkt með sérstakri ályktun að þar skuli vera her þar til réttkjörin stjórnvöld í Írak óska eftir breytingum á því.