131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:41]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé fullseint í rassinn gripið að við Íslendingar, sem hugsanlegir aðilar að Evrópusambandinu í framtíðinni, tökum þátt í stækkunarferlinu vegna þess að það er um garð gengið. (Gripið fram í: Nei.) Það verður það a.m.k. ef við mundum ganga inn í Evrópusambandið. Slík innganga gerist ekki á einni nóttu. Það sama má segja um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Það verður væntanlega búið að samþykkja hana áður en við gætum nokkurn tíma gengið inn í Evrópusambandið.

Þingmaðurinn nefndi einnig í ræðu sinni að hún teldi hagsmunum Íslendinga best borgið innan ESB og fiskveiðistjórnarkerfi sambandsins skipti þar engu. Ég leyfi mér að efast um það og ég leyfi mér líka að efast um að við Íslendingar fengjum nokkurn tíma einhverjar undanþágur frá hinu sameiginlega fiskveiðistjórnarkerfi. Fyrir því nefni ég þrjár ástæður. Í fyrsta lagi, af því að þingmaðurinn nefnir fræðimenn, hefur nýjasta úttektin sem gerð hefur verið á möguleikum okkar á undanþágum frá fiskveiðistefnu Evrópusambandsins leitt í ljós að það er afar ólíklegt að slíkar undanþágur yrðu veittar. Ég vísa þar til skýrslu Stefáns Más Stefánssonar, prófessors í Evrópurétti, og Óttars Pálssonar lögmanns þar um.

Ég get líka nefnt að ég var staddur á fundi á þingmannaráðstefnu EFTA-ríkjanna í Sviss fyrr á þessu ári. Þar fékk ég tækifæri til að spyrja Franz Fischler, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála og þar á meðal sjávarútvegsmála í Evrópusambandinu, að því hvort einhver möguleiki væri á því að Íslendingar fengju slíka undanþágu. Hann aftók það gersamlega. Hann taldi engar líkur á því að undanþágur yrðu veittar og við yrðum að taka upp þær reglur sem Evrópusambandið setur á þessu sviði.

Í þriðja lagi nefni ég að setja á ákvæði um hina sameiginlegu fiskveiðistjórn í stjórnarskrá ESB. Það er þannig með stjórnarskrár og ákvæði þeirra að menn geta ekki pillað það út úr stjórnarskrám sem þeim líkar en sleppt hinu. Það gildir bæði um stjórnarskrá ESB og stjórnarskrá okkar lýðveldis.