131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:49]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir fyrstu skýrslu sem hann flytur sem utanríkisráðherra. Við fyrsta lestur hennar fannst mér hún ansi mjúk og erfitt var að koma auga á einhver misindisverk. Við annan lestur kvað hins vegar við annan tón. Maður vaknaði við lesturinn og áttaði sig á að þetta er í raun og veru ekkert annað en afbakað afrit af síðustu ræðu forvera núverandi utanríkisráðherra. En hvað um það. Við erum hérna að tala um verk forverans og sennilega nokkur upphafsverk núverandi hæstv. utanríkisráðherra.

Við í Frjálslynda flokknum erum enn ekki á nokkurn hátt sátt við að land okkar skuli hafa verið dregið inn í hóp hinna staðföstu þjóða með Bandaríkjamönnum og Bretum í fararbroddi þegar innrásin í Írak var ákveðin fyrir tveimur árum. Hvað hefur gerst síðan þá? Nokkuð var tæpt á því í síðustu skýrslu en í skýrslunni núna er m.a. að finna það að bráðabirgðastjórn Íraks hefur nú þegar völd þar. En enn eru Bandaríkjamenn í Írak eða öllu heldur fjölþjóðaherinn margumræddi og látið líta út eins og allt sé í sómanum. Það er það kannski en miðað við orðalag í skýrslunni í samanburði við fréttir fjölmiðlanna á ég erfitt með að átta mig á hvað hefur áunnist með endurreisnarstarfinu í Írak. Hvernig er hægt að vinna endurreisnarstarf ef vilji íbúa landsins til þess er ekki sá sami?

Fjölmiðlar flytja okkur sífellt fréttir af ástandinu í Írak. Þar er ekki allt í sómanum. Bandaríkjamenn fremstir í flokki tröllríða samfélaginu með sprengjum, vopnum og pyntingum á föngum og þeir segja þetta nauðsynlegt. Það er þeim sjálfum nauðsynlegt að ljúka ætlunarverki sínu, nefnilega að kúga heila þjóð og eftir sitjum við Íslendingar með þeim í flokki sem ég held að meiri hluti landsmanna vilji engan veginn kenna sig við.

Fólkinu í Írak líður illa. Það mun taka heila kynslóð að uppræta stríðsklúður Bandaríkjamanna sem við erum aðilar að. Já, við erum sek. Verðum við Íslendingar í bræðralagi með Bandaríkjamönnum til eilífðar? Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvort engin leið sé til að við segjum okkur úr bandalagi hinna staðföstu þjóða og leggjum okkar af mörkum til endurreisnarstarfs Íraks án vopnalags eins og nú er. Saddam Hussein er úr leik og það var ein af forsendum þess að við vorum með. Það verk er búið. Hin forsendan var hins vegar sú að grunsemdir voru um að gereyðingarvopn væri að finna í Írak. Gereyðingarvopn hafa ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit þannig að ekki eru lengur forsendur fyrir áframhaldandi setu Íslands í flokki hinna staðföstu þjóða.

Mannúð er alltaf af því góða og á að vera það. Ég er virkilega ánægð með að sjá að við Íslendingar tökum þátt í hvers konar mannúðarstarfi á alheimsvísu. Hjálpum þjóðum að koma sér á réttan kjöl eftir hamfarir og stríðsógnir. Friðargæsla telst til mannúðarstarfa en allur ljómi af henni fellur þegar vopn eru notuð. Ég tel friðargæslu með vopnalagi ekki til neinna mannúðarmála og vil gjarnan fá svör frá hæstv. utanríkisráðherra um til hvaða mannúðarstarfa hann vísar í skýrslunni en þar er bara ekki átt við friðargæslu með vopnalagi.

Hvað hafa íslensk stjórnvöld látið til sín taka í sambandi við harmleikinn í Darfúr í Súdan? Þarna voru framin einhver mestu níðingsverk sem komast samt ekki enn á þann stall sem pyntingar Bandaríkjamanna á föngum í Írak eru.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins hefur verið nefnt í nánast hverri skýrslu utanríkisráðherra. Þetta er mál sem heimurinn fylgist með og enn er barist. Átökin stigmagnast frá degi til dags og enginn munur þar á.

Núna þegar baráttumaðurinn fyrir frelsi Palestínu, Yasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, er allur hvernig verður þá ástandið? Því getur hvorki utanríkisráðherra né ég svarað. En það er víst að mikið þarf til að komið sé skikki á hlutina í þeim heimshluta. Kannski utanríkisráðherra hafi í það minnsta einhverjar tillögur þar að lútandi. Það væri fróðlegt að sjá þær.

Frjálslyndi flokkurinn hefur löngum talað fyrir almennum sparnaðaraðgerðum í utanríkisþjónustu og vil ég því sérstaklega vísa til reksturs sendiráða Íslands víða um heim. Ég verð að leyfa mér að nota orðið bruðl í því sambandi. Það sannfærir mig og flokk minn engan veginn að verið sé að ausa fé í utanríkisþjónustuna á sama tíma og aðrar þjóðir eru að draga saman seglin í sendiráðsrekstri sínum. Bretar hafa t.d. lokað nokkrum sendiráðum sínum og hafa uppi áætlanir um að loka fleirum. Með hagkvæmnina að leiðarljósi trúa þeir því að fjármunum sé betur varið í öðru rekstrarformi en dýrri umgjörð sendiráða. Stór hluti af þessari ákvörðun þeirra er tekin í ljósi þeirra ógna sem steðja að þeim varðandi hryðjuverk. Það var mér því mikilvægt að lesa lokaorð hæstv. utanríkisráðherra í skýrslu hans. Þar kveðst hann ætla að meta fjölda starfsmanna, staðsetningu sendiskrifstofa og framlög til verkefna erlendis á grundvelli íslenskra hagsmuna á hverjum tíma og með mestu mögulega hagræðingu í huga.

Ég tek heils hugar undir með hæstv. utanríkisráðherra að hann hugi að almennri hagræðingu í sendiráðsrekstri í framtíðinni og leggi þar með skýra stefnumörkun í þau mál á næstunni. Jafnframt því langar mig til að spyrja utanríkisráðherra nánar út í það hvort eitthvað hafi verið ákveðið eða jafnvel áætlað í þessum efnum nú þegar.

Virðulegi forseti. Mörg orð hafa verið látin falla um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra í dag en fyrst og fremst vil ég nota tækifærið nú í lokin til að óska hæstv. utanríkisráðherra velfarnaðar í núverandi starfi sínu og vona að hann verði fastur fyrir eins og hans er von og vísa. Utanríkismál hafa löngum legið undir gagnrýni og þurfa því mjög markvisst aðhald af valdhöfum sínum. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra taki aðhaldið föstum tökum.