131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:59]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil færa hv. þingmanni þakkir fyrir málefnalega ræðu hennar sem hún flutti um utanríkismál og eftir því sem við á góð orð í minn garð. Auðvitað er það svo varðandi málaflokk eins og utanríkismál að menn geta deilt um einstök efnisatriði og útfærslu í þeim efnum en þó er mikilvægt að nokkur sátt ríki innan þings og meðal þjóðarinnar um það sem menn eru að gera.

Við heyrum öðru hverju talað um að stundum eigi sér stað bruðl og sóun vegna þess að við rekum um 20 sendiráð eða sendistofnanir um veröldina sem er nú sennilega það minnsta sem nokkurt sjálfstætt ríki sem einhverju nemur gerir. Sendiherrar okkar víða um veröld eru með fleiri lönd á sinni könnu en annars staðar þekkist, eru með kannski þrjá eða fjóra starfsmenn samanlagt í hverju sendiráði. Þegar menn horfa á útgjöldin af þessum sendiráðum gleyma menn því að vegna þess að við rekum sendiráð og vegna gagnkvæmnisreglna er stærri sendiráðum haldið uppi hér á landi með þeim tekjum fyrir þjóðarbúið sem það skilar. Til viðbótar gerist það einnig að við færum bara til gjalda kostnaðinn við sendiráðin en það sem útsendarar okkar í viðkomandi löndum gera til að tryggja viðskipti, ferðamál og þess háttar sem skilar heilmiklu í þjóðarbúið sér hvergi stað þegar menn gera upp reikninga sendiráðanna. Þetta er vandamál varðandi þessar reikningskúnstir. Ég ætla að svara kannski aðeins fleiru í næsta andsvari.