131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:03]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi nefna það sem kom fram í frumræðu hv. alþingismanns. Hún nefndi til sögunnar þá atburði sem urðu fréttir víða um veröld þegar fram kom að í ákveðnum fangelsum í Írak eftir innrásina hefðu Bandaríkjamenn iðkað ósæmilega hluti sem ollu mikilli hneykslun, bæði hér og annars staðar. En eins hræðilegt og þetta var, þá er þetta kannski samt talandi dæmi um breytingarnar. Pyntingar af hvers konar tagi fóru fram í írökskum fangelsum áratugum saman og það gat enginn klagað, það gat enginn fengið uppreisn og hinir seku voru ekki dregnir til ábyrgðar. Nú þegar er búið að draga bandaríska yfirmenn í þessum fangelsum fyrir dómstóla og dæma í fangelsi vegna framferðis þeirra. Það hefði verið óhugsandi í Írak á fyrri tíð. Þó að þetta sé óskemmtilegt dæmi er það þó dæmi um hvernig hlutirnir hafa breyst þegar menn ganga götuna í átt til lýðræðis. Auðvitað mun á ýmsu ganga, ég tala nú ekki um þegar hermdarverkamenn sprengja saklausa borgara í loft upp víða hvar á þessari leið. En við skulum ekki gleyma því að eftir fall Þýskalands og til þessa dags, þó að það sé kannski ekki ástæða til þess, hafa Bandaríkjamenn 100 þúsund hermenn í Þýskalandi. Bretar og Frakkar höfðu einnig hermenn í því landi eftir styrjöldina og hafa reyndar enn þó að forsendur séu breyttar. Allt tekur þetta tíma. Ég er ekki að halda því fram að það sé nein nauðsyn að hafa hermenn í Þýskalandi af ástæðum eins og í Írak en þetta sýnir samt sem áður hversu langan tíma hlutirnir eru að breytast.