131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:53]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið góð og fróðleg umræða að mörgu leyti. Ég ætla ekki að lengja hana mikið en stikla þó aðeins á nokkrum þáttum.

Ég er innilega sammála því sem kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að mannréttindi eru algild og ég held að menn hugi ekki alltaf nægilega vel að því í umræðunni. Menn hljóta alltaf að verða að hafa það að leiðarljósi í störfum sínum á vettvangi utanríkismála og ég efast ekki um að svo sé um alla sem eru í þessum sal. En það er ekki einfalt mál að fara til svæða sem eru mjög ólík því sem við þekkjum í þeim tilgangi að breyta þar og bæta og slíkt tekur örugglega langan tíma. Hér hefur bæði verið rætt um málefni Afganistans og Íraks. Enn er þar langt í land þrátt fyrir að menn hafi lagt sig alla fram, en við hljótum að vera sammála um að ástandið er orðið mun betra en það var fyrir nokkrum missirum.

Það hefur líka verið rætt um Evrópusambandið, sem er eðlilegt, og það er athyglisvert að fylgjast með þróuninni þar. Ég held að Evrópusambandið hafi haft mjög gott af stækkuninni. Ég sit í þingmannanefnd EFTA og nefndin fær oft gesti, háttsetta embættismenn frá Evrópusambandinu, sem lýsa hlutunum frá fyrstu hendi og það er athyglisvert að fylgjast með málum á þeim vettvangi. Það er skemmst frá því að segja að það er ekki hægt að horfa fram hjá því að í þessum 15 ríkja klúbbi hafa menn ekki náð þeim markmiðum sem þeir ætluðu sér, ef þannig má að orði komast. Og vandamálin verða enn fleiri þegar ríkin verða orðin 25.

Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um og vil í það minnsta trúa því að Evrópusambandið hafi mjög gott af stækkuninni. Ég held að við munum sjá það þróast í góða átt eftir stækkunina, það má a.m.k. alveg eins gera ráð fyrir að svo verði. Það liggur fyrir að vandamálin eru mörg og kannski er það lýsandi dæmi, svo ég fari ekki út í smáatriði, hvernig viðhorf íbúa innan Evrópusambandsins hafa breyst.

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum eru bara um 43% af íbúunum Evrópusambandsins jákvæðir út í Evrópusambandið. Hlutfallið hefur aldrei verið lægra. Í landi eins og Þýskalandi sem mætti ætla að hefði mikinn hag af því að vera í Evrópusambandinu og hefur verið annað af tveimur öflugustu ríkjunum innan Evrópusambandsins — í stjórnmálunum hefur alla vega verið mikil samstaða um áherslu á Evrópusambandið og mál þess — þar telja einungis 39% íbúanna að Þýskaland hafi hagnast á Evrópusambandinu en 38% telja að landið hafi tapað á því. Um 50% af íbúum Evrópusambandsins er sama þó Evrópusambandið væri ekki lengur til, eða væri mjög ánægt með það.

Þetta er nokkuð athyglisvert og hefur verið til umfjöllunar í ýmsum erlendum fjölmiðlum en lítið áberandi í umræðu í íslenskum fjölmiðlum, þ.e. sú viðhorfsbreyting almennings sem hefur orðið í þessum löndum á undanförnum árum gagnvart Evrópusambandinu. Það er áhyggjuefni og ekkert gleðiefni.

Ég held hins vegar að það væri ágætt ef íslenskir fjölmiðlar upplýstu okkur betur um þessi mál þegar rætt er um Evrópumálin hér inni. Að um 50% af íbúum Evrópusambandsins skuli standa á sama um hvort Evrópusambandið hætti að vera til eða yrðu mjög ánægðir ef það hætti að vera til hlýtur að segja einhverja sögu.

Ég hef heyrt í spjalli við fólk og einnig hjá fyrirlesurum innan Evrópusambandsins sem hafa mikinn áhuga á því að EFTA-löndin gangi í Evrópusambandið, ég held að ég hafi hlustað á þessar ræður í áratug á ýmsum vettvangi — og ég vísa hér í fund og ráðstefnu núna síðast í tilefni af 10 ára afmæli EES-samningsins — að það er komin ákveðin gremja í málflutning þeirra aðila sem hafa allan þennan tíma sagt að við þyrftum að vera inni vegna þess að við mundum tapa svo stórkostlega á því að vera þar ekki, mér finnst maður greina þarna svolitla gremju. Ég velti fyrir mér hvort menn muni verða minna umburðarlyndir gagnvart EFTA-ríkjunum á þessum vettvangi og hvort hugsanlega verði reynt með ýmsum leiðum að fá okkur inn í sambandið. Ég vona að svo sé ekki. Það er auðvitað lykilatriði fyrir okkur að eiga góð samskipti við Evrópusambandið og þannig verður það vonandi um alla framtíð. Ég vona að embættismenn og stjórnmálamenn sem er mjög umhugað um Evrópusambandið beiti sér ekki með óeðlilegum hætti fyrir því að EFTA-ríkin neyðist til að fara inn í Evrópusambandið.

Ég lít hins vegar á EFTA-samstarfið sem ákveðið sóknarfæri og ég held að við nýtum það ekki sem skyldi. Ég tel að við eigum að beita okkur meira innan þingmannanefndarinnar, við höfum sannarlega gert það en þurfum að gera meira af því, og sem formaður umhverfisnefndar mun ég beita mér þar og á þessum vettvangi til þess að hafa áhrif á þær reglugerðir og tilskipanir sem okkur berast.

Þetta var sett á sínum tíma inn í vettvang til þess að við gætum haft áhrif á gang mála og við eigum að nýta okkur það. Við kannski áttum okkur ekki á því hve mikið af hlutum hafa áhrif á þjóðlífið hér og margt auðvitað haft góð áhrif, en svo sannarlega ekki allt og við þurfum að vera vel á verði.

Hér var rætt áðan um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Ég verð að segja eins og er að það kom mér ansi mikið á óvart þegar hv. þm. Ögmund Jónasson talaði um að það væri ekki hagur þróunarríkjanna að vera með frjáls viðskipti innan stofnunarinnar. Auðvitað er Alþjóðaviðskiptastofnunin ekkert annað en tæki til þess að koma á frjálsum viðskiptum og ekki nokkur einasta leið að halda því fram með nokkurri sanngirni að þróunarríkin hagnist ekki á því að iðnríkin opni markaði sína fyrir þeirra vöru. Það hefur verið baráttumál þróunarríkjanna í ansi langan tíma og þeir hafa réttilega bent á að það hefur verið tilhneiging hjá iðnríkjunum að loka sína markaði inni til þess að koma í veg fyrir samkeppni frá þessum löndum.

Ef menn eru á annarri skoðun er það mikil frétt. Ég held að þeir ættu að kynna hana fyrir þróunarlöndunum því þau berjast með oddi og egg fyrir opnun markaða og auknu frelsi í viðskiptum. Við tölum um þetta mjög fjarrænt, en það er ekkert rosalega langt síðan við vorum nákvæmlega í þessum sporum, Íslendingar. Svo sannarlega byggjum við velferð okkar á frjálsum viðskiptum. Ef við lítum til þeirra aðila sem börðust fyrir sjálfstæði landsins, t.d. Jóns Sigurðssonar, þá barðist hann ekki lítið fyrir því að við mundum geta stundað frjáls viðskipti, enda er það undirstaða fyrir efnahag þjóðarinnar. Einu sinni vorum við fátæk þjóð, en sem betur fer hefur sú staða breyst. Um langan tíma var fiskur mikilvægasta greinin okkar, fiskveiðar og sjávarútvegur. Þó hlutfallslegt vægi hafi minnkað er lykilatriði fyrir velferð okkar að við höfum aðgang að mörkuðum iðnríkjanna með þær vörur. Það nákvæmlega sama á við um þróunarríkin sem eru stórir matvælaframleiðendur. Ef við ætlum að hjálpa þeim til sjálfshjálpar verðum við að gera það með því að opna markaði okkar.

Ég tel mjög mikilvægt að það náist farsæl niðurstaða í lotunni sem nú er í gangi hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Þrátt fyrir að menn geti haft misjafnar skoðanir á þeim einstaklingi sem nýlega var kosinn forseti Bandaríkjanna held ég að menn séu sammála um að það eru þó meiri líkur á því að jákvæð niðurstaða náist í þeim samningum með hann við stjórnvölinn en keppinaut hans. Nú liggur fyrir að þeir aðilar sem eru mestu þátttakendurnir í viðskiptasamningnum, fyrrum GATT, sem nú er kallað WTO eða Alþjóðaviðskiptastofnunin, eru Bandaríkjamenn því Evrópusambandið, sem er hinn stóri þátttakandinn á efnahagssviðinu, hefur verið gagnrýnt mjög í gegnum tíðina fyrir að hafa lítinn áhuga á að efla viðskipti á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunar þó það hafi svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að efla innri markað sinn.

Ég velti fyrir mér hvert hlutskipti okkar geti verið. Hvað getum við gert? Við gætum gert eitt á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunar. Annað gætum við líka gert, af því við erum ekki í neinu tollabandalagi og höfum í rauninni frelsi um þessa hluti, við gætum skilgreint með skýrari hætti að minnka hér innflutningshöft á einhverju tímabili og sett okkur metnaðarfyllri markmið en þau sem við verðum að undirgangast í samningunum, sem mundu miða að því að auka frelsi, lækka tolla og minnka innflutningshöft á Íslandi.

Ég hef velt því fyrir mér hvort það væri skynsamlegt að gera eins og margar aðrar þjóðir sem líta fyrst og fremst á landbúnað sinn út frá menningarforsendum, í tengslum við sögu og menningu. Ég gerði úttekt á sínum tíma á Alþjóðaviðskiptastofnuninni í stjórnmálafræðinni og GATT-samningunum. Þá lögðu Japanar t.d. mikið upp úr því, þar sem það var mjög óhagstætt að vera með hrísgrjónarækt, að það væri órofa hluti af menningu þeirra og sögu og þess vegna, þó svo þeir stæðust ekki samkeppni og þyrftu að hafa mikil innflutningshöft til að viðhalda þeim landbúnaðarrekstri, var ekki annað forsvaranlegt. Það voru rök þeirra í málinu.

Ég velti því fyrir mér hvort það væri skynsamlegt af okkur að skilgreina hagsmuni okkar á landbúnaðarsviðinu út frá þeim forsendum. Það er þyngra. Að líta fyrst og fremst á hefðbundna sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og þá kjötframleiðslu sem að því lýtur. Kannski minnka þá innflutningshöftin á öðrum sviðum á einhverjum árum. Þá vísa ég í þann landbúnað sem er kannski ekki hefðbundinn sögulegur landbúnaður, svínarækt, kjúklingarækt og annað slíkt. Slíkt þyrfti auðvitað að gerast í góðri samvinnu og það þyrfti ekki að gera það hratt því eðli málsins samkvæmt hafa menn og aðilar mikilla hagsmuna að gæta.

Ég held að það væri sjálfsagt fyrir okkur að taka þá umræðu og skoða það mál. Við megum ekki gleyma því að við höfum frelsi í þessum málum. Við getum gengið mun lengra en þeir viðskiptasamningar sem við gerum bjóða upp á. Það er okkar val. Það hefur sýnt sig að það eru hagsmunir þjóða að hafa sem minnst höft á sviði verslunar og erum við skilgreint dæmi um það, Íslendingar, þó að við þurfum eðli málsins samkvæmt að líta til annarra þátta. Ég er ekki að boða neinar byltingar, heldur fyrst og fremst að menn ræði þessi mál.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra. Það er af mörgu að taka þegar utanríkismálin eru annars vegar og hægt að ræða þau fram eftir vikunni og fram eftir nóttu. Það er sjálfsagt að ræða þau eitthvað áfram ef svo ber undir, en þetta vildi ég gera að umtalsefni að þessu sinni.