131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:16]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í ræðu sinni áðan að hann teldi að ástandið í Írak væri betra en það hefði verið fyrir nokkrum missirum. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni að mikið lægi á að koma á lýðræði og tryggja stöðugleika í Írak.

Nú er ég ekki kominn hingað til mæla þeirri stjórn bót á neinn hátt sem var í Írak áður en innrásin var gerð fyrir rúmlega einu og hálfu ári, langt í frá, en maður hlýtur að setja spurningarmerki við fullyrðingar um stöðugleika í Írak í ljósi þeirra frétta sem berast frá því landi þessa dagana. Ég prentaði að gamni mínu út fyrirsagnir sem komið hafa inn á fréttavefinn mbl.is frá því í fyrradag. Hér eru fyrirsagnirnar, með leyfi forseta:

„Íröksk öfgasamtök fyrirskipa árásir á skotmörk í Írak.

Tveir Írakar létust af völdum bílasprengju við Kirkuk.

13 Írakar fórust af völdum bílasprengju í Bagdad.

Bardagar brjótast út í Falluja að nýju.

Vegarsprengjur verða 7 að bana í Írak.

11 bandarískir hermenn og 2 írakskir fallnir í Falluja.

Bílasprengjuárás gerð á borgarstjóra Kirkuk í Írak.

600 uppreisnarmenn drepnir frá upphafi innrásar í Falluja.“

Þar geisar núna gríðarlega hörð orrusta sem staðið hefur yfir í nokkra sólarhringa. Í hádeginu fengum við fréttir af því að skæruliðar sem földu sig í þessari borg hefðu sennilega sloppið, flestir þeirra, og að uppreisnin væri farin að breiðast út víðar um landið, þ.e. við erum farin að sjá klassísk einkenni skæruhernaðar þar sem menn birtast og hverfa jafnharðan aftur, mjög erfitt að festa hendur á ástandinu og nánast ómögulegt að ráða niðurlögum þessara afla. Ef þetta er stöðugleikinn sem menn hafa verið að lýsa eftir í Írak núna þegar rúmlega eitt og hálft ár er liðið frá því að innrásin hófst verð ég að segja að stöðugleiki er mjög afstætt hugtak.