131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:19]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég man ekki eftir því að hafa minnst á stöðugleika í ræðu minni. Ég vil trúa því að þar sem við, vestrænar þjóðir, höfum haft afskipti — menn gleyma oft í upptalningunni sumum landsvæðum, t.d. Kosovo áður — þ.e. í Afganistan og Írak núna, séu hlutirnir að þróast í rétta átt. Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að þetta séu vandamálalaus svæði. Í rauninni held ég að það sé þvert á móti, ég held að þar séu uppi gríðarleg vandamál. Menn tala aldrei um Kosovo en þar vitum við af mjög miklum vanda.

Að byggja Afganistan upp úr þeim rústum sem það land var í eftir þá gríðarlegu harðstjórn sem þar var er ekki auðvelt verk. Það hefur svo sem ekki klárast. Ég held hins vegar að jákvæð teikn séu á lofti eins og menn voru að nefna hér áðan varðandi kjörsókn og annað slíkt.

Írak er örugglega stærsta dæmið. Ef þær fullyrðingar sem hér voru uppi í þingsal sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur vakið athygli á eru réttar héldu vinstri grænir því fram að í tíð Saddams Husseins hefðu 300 börn dáið á dag úr hungri og vannæringu, á sama tíma og hann var með milljarða inni í höllum sínum. Við þekkjum þær fjöldagrafir sem hafa fundist. Það liggur alveg fyrir og allir vita að engir fjölmiðlar sögðu okkur hvað var í gangi í tíð þess harðstjóra sem mun nú komast á spjöld sögunnar og er á spjöldum sögunnar sem einn mesti harðstjóri í sögu mannkynsins.

Ég ætla ekki að halda því fram að menn séu búnir að leysa allan vanda, því fer víðs fjarri, en við skulum vona að við munum ná árangri þar sem og annars staðar.