131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:21]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum haldið mjög lengi áfram að deila um það hversu margir hafa látist á ákveðnum tímabilum í sögu Íraks, bæði á þeim dögum sem nú líða og fyrir nokkrum árum þegar ógnarstjórn Saddams Husseins var við lýði. Sú umræða skilar okkur kannski ekkert voðalega langt á veg. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í andsvari fyrr í dag að hann efaðist mjög um tölur um mannfall óbreyttra borgara í Írak frá því að innrásin hófst, 100 þús. manns. Þær tölur voru birtar í breska læknavísindaritinu The Lancet á dögunum. Hæstv. utanríkisráðherra efaðist um að þær tölur væru réttar og hélt að mannfallið væri í raun og veru miklu minna. Ég veit það ekki. Ég hef ekki komið til Íraks. Ég hef ekkert fast í hendi hvað þetta varðar. Ég tel að þetta sé heldur ekki alveg mergurinn málsins. Mergurinn málsins er sá að ég held að þessi innrás hafi einfaldlega ekki skilað því sem til var ætlast. Hún mun ekki gera það. Ég held að full ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af því að ástandið í þessu hrjáða landi eigi eftir að versna enn og eigi eftir að versna mjög á næstu vikum og mánuðum þegar líður að kosningum sem fyrirhugað er að halda þarna í janúar, ef ég man rétt.

Það er ekki að sjá að herjum Bandaríkjamanna, Breta og fleiri þjóða hafi tekist að ná neinum tökum á þessu ástandi, því miður. Stjórnvöld, bæði hér á Íslandi og í öðrum löndum, voru ítrekað vöruð við áður en ákvörðun var tekin um innrásina í Írak. Það var sagt að þessi innrás mundi eingöngu gera vont verra. Ég held því miður að það hafi komið á daginn. Menn hefðu átt að hugsa sig um tvisvar áður en þeir fóru inn í Írak til að reyna að koma Saddam Hussein frá völdum og frekar þá að íhuga þann möguleika hvort vel heppnuð byssukúla hefði ekki getað leyst af hendi það verk sem nú hefur tekið þessa heri eitt og hálft ár að reyna að leysa af hendi, verk sem gersamlega er að mistakast.